DeHaan verður vinur Peter Parker

Leikstjóri The Amazing Spider-Man 2, Marc Webb, er búinn að ráða leikarann Dane DeHaan í hlutverk Harry Osborn, vinar Peter Parker – köngulóarmannsins.
Harry Osborn er sonur illmennisins Green Goblin, eins og menn þekkja úr eldri Spider-Man myndunum, en það var James Franco sem lék Osborn í þeim myndum.

DeHaan er 24 ára gamall, og er best þekktur fyrir leik sinn í myndinni Chronicle.  Hann hefur einnig leikið í sjónvarpsþáttunum In Treatment á HBO sjónvarpsstöðinni bandarísku. Auk þess fór hann með smærri hlutverk í myndunum Lincoln og Lawless.

Eins og þegar hefur verið sagt frá þá mun Andrew Garfield mæta aftur til leiks í hlutverki Spider-Man og búist er við því að Emma Stone muni einnig endurtaka sinn leik, sem Gwen Stacy.  Shailene Woodely úr The Descendants hefur auk þess verið í viðræðum um að leika Mary Jane Watson.

Tökur myndarinnar hefjast snemma á næsta ári.