Grimm en samt pínu þreytandi karakterstúdía

Joe Carnahan er maður sem fer oftast ekki mjög fínt í hlutina. Hann gerir hráar, bandbrjálaðar og ofbeldisfullar testósterónmyndir og virðist alveg eiga heima á þeim velli. Það þykir mér ekki skrítið að þegar meðaláhorfandinn ætlar að skella sér að kíkja á þessa mynd, þá heldur hann að hann sé að fara að horfa á einn svalasta mann í heimi lemja niður blóðþyrsta úlfa með reiðilegum grettusvip og óhugnanlegri fagmennsku. Síðan étur hann þá í kvöldmatinn til að nærast, safna orku og senda eftirlifendunum brútal skilaboð. Úlfarnir eru ekki stærsta ógnin í svellkaldri náttúrunni, heldur Neeson hinn ógurlegi!

Auðvitað fylgir ýmislegt annað með, en þetta er allavega það sem sýnishornin vilja að maður haldi, og miðað við þann kómíska absúrdleika sem einkenndi síðustu mynd leikstjórans, The A-Team, þá er þetta ekki beint langsótt tilhugsun.

Sem betur fer er ég löngu hættur að treysta því sem (bíó)auglýsingar segja mér, en það breytir því ekki að langflestir sem gera sér slíkar vonir verða vægast sagt vonsviknir. Þeir sem eru ekki kvikmyndanördar kæra sig ekki alltaf um það að búast við grjótharðri spennumynd og fá síðan kalda, rólega, raunsæja, karakterdrifna dramamynd um lífið og dauðann í staðinn. Mig langar næstum því til þess að sjá þessa mynd aftur með týpískum mainstream-áhorfanda, bara til að sjá viðbrögðin hans þegar hann fær eitthvað allt, allt annað heldur en hann átti von á.

Ég veit að það er ósanngjarnt og heimskulegt af mér að kenna bíómyndinni sjálfri um villandi markaðssetningu. Það er líka mjög erfitt að búa til sýnishorn fyrir mynd eins og The Grey án þess að sýna flottustu skotin eða mest spennandi senurnar, akkúrat vegna þess að myndin hefur mjög lítið af hvorutveggja. Ég hefði alveg drepið fyrir að sjá Liam Neeson slátra úlfum í tvo tíma, einfaldlega vegna þess að fáir leikarar gætu gert það með eins mikilli hörku (og þegar Neeson er harður og með markmið sín á heinu, þá er hann oftast óstöðvandi og eitursvalur!) en ég get ekki persónulega sett út á það að hafa fengið miklu sálfræðilegri og óhefðbundnari mynd í staðinn. Það er minn tebolli. Hængurinn er samt sá að sú mynd er ekkert svakalega fullnægjandi eða djúp. Sama hvað hún heldur.

The Grey hefur ýmislegt af hinu góða, þar á meðal sturlaða flugslyssenu, fáein ágæt úlfamóment, þokkalegar hættusenur, semí-athyglisverðar þemur, ágæta (en fyrirsjáanlega) fléttu og nokkuð djarfan endi sem mun pottþétt annaðhvort vera elskaður eða hataður. Það veltur samt bara á því hvers konar væntingar eru gerðar. Hugmyndin er fullkomin og get ég ímyndað mér að lokasenan hafi virkað betur á blaði því í myndinni er hún pínu máttlaus. Neeson er samt hátt í magnaður í aðalhlutverki sem er ekki bara líkamlega krejandi, heldur algjört helvíti andlega. Karakterinn hans er áhugaverður og það er nokkuð augljóst að hlutverkið hafi verið mjög persónulegt fyrir „grey“ manninn. Þeir sem leggja saman tvo og tvo vita alveg hvað ég á við.

Myndatakan er flott og nýtir sér gráhvíta landslagið í alveg mátulega grípandi andrúmsloft. Ég get að vísu ekki sagt að klipping eða brellur hafi komið neitt alltof vel út í sumum senum, og þessu er beint að atvikum þar með fjórfættu heljarhundarnir sýna hvað í þeim býr. En það er bara partur af stærra vandamáli. Það eru margar senur í The Grey sem ganga umhugsunarlaust upp og gera það sem Carnahan sóttist eftir. Svo koma langir kaflar sem spyrja alls kyns spurningar um m.a. náttúru og trú, og það má vel vera að sumar umræður slái á nokkuð áhugaverða strengi, en einnig breytast þær líka í svolitla predikun og klisjukennt trúleysingjaþvaður. Og ég segi þetta sem trúleysingi sjálfur – pælið aðeins í því.

Það er heldur ekki nein aukapersóna í allri myndinni sem skildi eitthvað eftir sig þegar áhorfinu lauk að mínu mati, og það er ekki mjög heppilegt þegar handritið er einmitt að reyna að fá okkur til þess að líta á þær sem eitthvað annað en tilvonandi fórnarlömb. Myndin hefði a.m.k. átt að stilla hliðarpersónunum aðeins betur upp áður en allt ævintýrið byrjar, og ekki alveg mjólka dramatíkina eins og hún stundum gerir með þær. Þetta er þó algjörlega myndin hans Neeson, og aðeins styttri lengd, beittari samtöl og meiri fókus á hann einan hefði gert hana betri.

The Grey er fín karakterstúdía en mér finnst hún þykjast vera miklu dýpri heldur en hún er. Þegar hún skríður á seinni hlutann fór mér að verða býsna sama, meira að segja um karakterinn hans Neeson, þó svo að hann sé ágætlega skrifaður. Þessi vandaða, óvenjulega „maður-gegn-náttúru“ mynd er þess virði að sjá út af ýmsum ástæðum, en ég get ekki sagt að hún hafi snert við mér og ég held að það verður langt í það að ég kíki á hana aftur. Aðdáunarverð tilraun samt, og gaman að sjá leikstjórann fara í aðrar áttir.

Ekki svo gleyma því að það er stutt atriði eftir kreditlistann.


(6/10)