Kate Winslet slapp þegar hús Richards Branson brann til kaldra kola

Kvikmyndaleikkonan og Óskarsverðlaunahafinn Kate Winslet slapp með skrekkinn þegar lúxushús í eigu breska athafna- og milljarðamæringsins Richard Bransons brann sl. nótt.
Húsið er á Necker eyju sem er í eigu Bransons, og er í breska jómfrúareyjaklasanum. Branson segir að 20 manns hafi verið í húsinu og allir hafi sloppið ómeiddir.

Branson sjálfur var í öðru húsi á eyjunni um 100 metra í burtu ásamt eiginkonunni Joan, og syninum Sam.

Branson segir í frétt AP fréttastofunnar að eldurinn hafi komið upp þegar þrumuveður geisaði og Sam hafi hjálpað Winslet og öðrum gestum út úr brennandi húsinu.

Hann segir að húsið sér gjöreyðilagt og eldurinn hafi enn logað þegar birti af degi í dag, mánudag.