Gilliam enn í basli með Kíkóta

Það ætlar ekki að ganga þrautalaust fyrir sig fyrir Monty Python leikstjórann og leikarann Terry Gilliam að fjármagna mynd sína The Man Who Killed Don Quixote ( maðurinn sem drap Don Kíkóta )
„Fjármögnunin rann út í sandinn fyrir um einum og hálfum mánuði síðan,“ sagði Gilliam á laugardaginn á Deauville American Film Festival, að því er Variety kvikmyndatímaritið segir frá. „Ég ætti eiginlega ekki að vera staddur hér. Samkvæmt áætlunum mínum átti ég að vera að taka upp Quixote núna,“ bætti Gilliam við.

Hann ætlar þó ekki að leggja árar í bát, og er enn ákveðinn í að gera myndina.

„Robert Duvall leikur Quixote, Ewan McGregor leikur einnig í myndinni, og við erum að leita að nýrri fjármögnun núna,“ sagði Gilliam.

Myndin, sem Terry Gilliam hefur lengi dreymt um að gera, átti upphaflega að byrja á fyrir áratug síðan, en hætta þurfti við útaf slæmu veðri, sem meðal annars eyðilagði leikmyndina. Auk þess glímdi aðalleikarinn Jean Rochefort við bakmeiðsli.
Sagan í myndinni er eitthvað á þá leið að kvikmyndagerðarmaður slæst í för með Don Kíkóta á hinu fræga ferðalagi riddarans hugumstóra, og verður óafvitandi að aðstoðarmanni og skósveini Kíkóta, Sancho Pancha.

Terry Gilliam.