"Manos" og "Thundercrack!" á Blu

Manos4

Hversu margir hafa beðið spenntir eftir þessu?

Það er óhætt að fullyrða að næstu tvær útgáfurnar frá Blu-ray útgáfufyrirtækinu Synapse Films eru algjört „költ“ og unnendur lélegra mynda eiga hátíð í vændum; sér í lagi þegar „Manos: The Hands of Fate“ (1966) er höfð í huga.

Trygginga- og áburðarsölumaðurinn Harold P. Warren tók veðmáli þess efnis að hann færi létt með að búa til hryllingsmynd á eigin spýtur. Það var á kaffihúsi í Texas einn góðan veðurdag og hann krassaði niður helstu útlínur söguþráðarins á munnþurku þegar áskoruninni var tekið. Í stuttu máli fjallar myndin um ólánsama fjölskyldu sem verður fyrir barðinu á sértrúarsöfnuði á ferð sinni í kringum Texas. Söfnuðurinn heldur fjölskyldunni fanginni á afskekktu bóndabýli en hún reynir ítrekað að flýja á meðan hópurinn ákveður hver örlög hennar verða.

Manos7    Manos2

Warren safnaði nógu miklum pening til að búa til myndina en hann dugði skammt þegar kom að leikurum og eftirvinnslu. Hópurinn samanstóð af áhugafólki og búnaðurinn var allur leigður í skamman tíma og því þurfti að hafa hraðar hendur til að skjóta allar senurnar. Einungis var hægt að mynda 32 sekúndur í einu og því voru vandræðin alls konar þegar kom að klippingu og allt hljóð var sett inn eftir á og var t.a.m. ein kona fengin til að ljá öllum kvenpersónum raddirnar.

Manos5Útkoman er ein versta mynd sögunnar að margra mati. Gallarnir eru of margir til að lista upp en hún var valin til meðferðar hjá Mystery Science Theater 3000, sem var sjónvarpsþáttur sem gekk út á að hæðast að B-myndum, og þykir sá þáttur einn sá allra fyndnasti. Þátturinn vakti athygli á myndinni sem fallin var í gleymskunnar dá og síðan þá hefur aðdáendahópurinn vaxið stöðugt. Einn slíkur aðdáandi kom höndum yfir upprunalega eintakið af myndinni og því var hægt að lagfæra hana fyrir Blu-ray útgáfu. Eftir „Kickstarter“ söfnun fyrir átakinu safnaðist nógu mikill peningur til að ráðast í verkefnið. Criterion Collection afþakkaði pent en Synapse Films sló til.

Sögurnar á bak við myndir sem þessar eru án undantekninga áhugaverðari en þær sjálfar. Warren gerði aldrei aðra mynd þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að fá fjármagn fyrir þeirri næstu og sömuleiðis gekk ekki að gefa „Manos“ út í bókaformi.

 

Manos3

John Reynolds, sem lék eitt af stærri hlutverkunum í myndinni, framdi sjálfsmorð skömmu fyrir frumsýningu myndarinnar. Fyrir hlutverk sitt notaði hann járnbúnað á löppunum sem áttu að sýna fram á takmarkaða hreyfigetu persónunnar en leikarinn snéri óafvitandi búnaðinum við sem leiddi til mikils sársauka sem hann reyndi að þrauka í gegnum með hjálp verkjalyfja. Lappirnar á Reynolds urðu fyrir varanlegum skaða og talið er að í lyfjavímu hafi hann tekið sitt eigið líf.

Warren var greinilega ekki sá sleipasti í spænsku því orðið Manos þýðir hendur. Þar af leiðandi er titill myndarinnar; „Hands: The Hands of Fate“.

Manos6

Synapse Films inniheldur blessunarlega greinargóða heimildarmynd um gerð „Manos: The Hands of Fate“ þar sem skrautlegri sögu hennar eru gerð góð skil. Kaupendur verða að hafa einhverja gulrót eftir þessa þolraun. Eitt er þó víst; Warren vann veðmálið.

Myndin hefur, skiljanlega, fengið arfaslaka dóma hjá gagnrýnendum en þeir hrósa framtakinu hjá Synapse og segja allir að þessi hroði hafi aldrei litið jafn vel út.

Thunder3

Næsta mynd á lista Synapse er „Thundercrack!“ (1975) og er henni lýst sem „klámfenginni svartri kómedíu sem inniheldur gamaldags spennu í bland við gróf kynlífsatriði“.  Ekki margar myndir sem geta státað af þessari lýsingu. Þessi viðhafnarútgáfa er búin að vera lengi í fæðingu en útgáfudagur er 8. desember. Myndin er víðfræg í „undirheima“ kvikmyndabálkinum en hefur ekki fengið góða útgáfu og því aldrei litið vel út á heimamarkaðnum.

Fjöldi fólks leitar sér skjóls í drungalegu húsi á afskekktum stað í vonskuveðri. Eigandinn tekur á móti þeim en er grunsamleg ásýndar og ýmsir undarlegir atburðir eiga sér stað. Þessir undarlegu atburðir eru víst kynlífsleikir af öllu tagi og einhvern veginn tekst að troða górillu inn í atburðarrásina og tekur hún þátt í herlegheitunum. Ef þetta er ekki költ…

Thunder1

Útgáfan hjá Synapse virðist ætla að verða fyrsta flokks. Um algjöra myndræna yfirhalningu er að ræða og svo er aukaefnið áhugavert. Viðtalsbútum við leikstjóra myndarinnar, Curt McDowell, hefur verið safnað saman og mynda þeir yfirlestur fyrir myndina.  Jólin koma snemma í ár fyrir unnendur klámfenginna svartra kómedía með vott af spennu og smá „dónó“.