Love Hewitt ný í Criminal Minds

Leikkonan vinsæla Jennifer Love Hewitt er nýjasta viðbótin við leikaralið sjónvarpsþáttanna Criminal Minds. Persóna hennar verður kynnt til sögunnar þegar 10. þáttaröðin fer í loftið þann 1. október nk. í Bandaríkjunum.

love hewitt

Hewitt mun leika Kate Callahan, reyndan fulltrúa sem vinnur á laun, en frábært starf hennar hjá alríkislögreglunni FBI hefur gert það að verkum að henni var boðið starf hjá hinni virtu atferlisrannsóknardeild, sem þættirnir fjalla um.

„Við erum hæstánægð með að kynna til sögunnar nýjan fulltrúa með því að fá hina hæfileikaríku Jennifer Love Hewitt í okkar raðir,“ sagði aðalframleiðandi þáttanna, Erica Messer í tilkynningu.

Hewitt lék Melinda Gorond í fimm þáttaröðum af Ghost Whisperer hjá CBS sjónvarpsstöðinni, sem einnig framleiðir Criminal Minds.

Þá hefur hún leikið í ýmsum öðrum sjónvarpsþáttum og kvikmyndum eins og I Know What You Did Last Summer, og framhaldsmyndinni I Still Know What You Did Last Summer. Þá má nefna myndir eins og Heartbreakers, þar sem hún lék á móti Sigourney Weaver, Gene Hackman og Ray Liotta, The Tuxedo, Garfield og Garfield 2: A Tale of Two Kitties.

Aðrir helstu leikarar í Criminal Minds eru Joe Mantegna, Thomas Gibson, Shemar Moore, Matthew Gray Gubler, AJ Cook og Kirsten Vangsness.