Umfjöllun: Bad Grandpa (2013)

Bad Grandpa kemur úr smiðju þeirra Jackass félaga og er dálítið eins og við var að búast, en það sem gerir myndina góða er að við fáum að sjá viðbrögð frá „alvöru“ fólki með falinni myndavél. Það kemur mér á óvart ef þetta er viðbrögð fólks við sumum atriðum, en þeir hafa örugglega þurft nokkrar tökur til að fá þau viðbrögð sem þeir vildu í hverju atriði.

Myndin fjallar um Irving Zisman (sem hefur áður komið við sögu í Jackass) sem missir konuna sína og tekur því fagnandi. Dóttir hans þarf hinsvegar að fá aðstoð hans við að koma barnabarninu til föður sins.

Sá gamli er ekki hrifinn af því og hugsar bara um að komast ofaní buxurnar á næsta kvennmanni.

Johnny Knoxville, Jackson Nicoll

Myndinni er leikstýrt af Jeff Tremaine sem hefur komið að flestu sem Jackass hafa gert.
Johnny Knoxville leikur afann og gerir það af algerri snilld, það er varla hægt að sjá að þetta sé maður í gervi. Æðislegir taktar, rödd og svipbrigði. Jackson Nicoll leikur barnabarnið og stendur sig mjög vel.

Ég hefði viljað sá þessa mynd í fullum sal og það helst á góðu laugardagskvöldi. Myndin er mikið með „neðanbeltis“ brandarar og ætti kannski að vera bönnuð innan 14 ára í stað 12 ára.

Strákurinn minn (11 ára) kom með og hafði mjög gaman af myndinnni. Mér fannst samt dálítið óþægilegt að sitja hliðina á honum í sumum atriðum. Ekkert alvarlegt samt 🙂

Þessi mynd er skemmtileg í þeim flokki sem hún tilheyrir (piss og kúka brandarar).
Myndin hækkaði um einn á meðan ég skrifaði þetta því tilhugsunin um sum atriðin fékk mig til að brosa 🙂

Í þremur orðum:  Fyndin, djörf og fersk.

Ég gef Bad Grandpa 7 af 10