Spielberg kaupir réttinn að breskri þáttaröð

Steven Spielberg hefur tryggt sér réttinn að bresku sjónvarpsþáttaröðinni The Syndicate og hyggst sýna hana í Bandaríkjunum.

BBC-þættirnir fjalla um vinningshafa í lottóinu og í aðalhlutverkum eru Timothy Spall og Matthew Lewis úr Harry Potter-myndunum.

Spielberg hreifst að þáttaröðinni og ákvað að hafa samband við höfundinn Kay Mellor í von um að búa til bandaríska útgáfu. Prufuþáttur er núna í undirbúningi og ef hann fellur í kramið verður hafist handa við nýja þáttaröð.

„Hann sagði mér að hann og eiginkona hans væru miklir aðdáendur þáttarins. Núna er verið að semja prufuþátt fyrir bandarísku stöðina ABC sem verður byggður á bresku útgáfunni,“ sagði Mellor við The Sun.

„Hann vissi allt um þáttaröðina, sem kemur kannski ekki á óvart því hann var búinn að sjá hvern þátt þrisvar sinnum.“