G.I. Joe: Retaliation færð um 9 mánuði

Ég veit ekki betur en að G.I. Joe-aðdáendur séu þokkalega sáttir með myndefnið sem þeir hafa hingað til séð úr nýjustu myndinni, sem ber undirheitið Retaliation. Hún leit strax mikið betur út en fyrri myndin frá Stephen Sommers og voru jákvæðir straumar að safnast upp því nær sem var farið að draga að frumsýningu.

Hins vegar þarf líklega núna að fjarlægja allar stiklur úr bíóunum ásamt plakötum og setja allt saman í tímabundna geymslu, vegna þess að samkvæmt The Hollywood Reporter hefur myndinni verið frestað til mars 2013. Upphaflega átti hún að koma út eftir rúman mánuð (29. júní)… í 2D.

Ástæðan? Paramount vill gefa út myndina í þrívídd og nýta nýja tímarammann til að breyta henni svo hún poppi meira út. Framleiðendur eru ekkert feimnir við að segja beint út að þeir telji líklegra að myndin skili inn meiri pening í 3D-útgáfu. Og án þess að segja það beint út, þá er sterkur grunur um að framleiðendur Hasbro kenni Battleship-floppinu um það að sú mynd var ekki sýnd í þrívídd.
Vill einhver vinsamlegast klappa þeim á bakið?

Hvernig líst þér annars á þessa mynd? Var hún á möst-lista sumarsins?
Og er það ekki dauðadómur að breyta mynd í 3D í eftirvinnslu ef hún var aldrei kvikmynduð með tilliti til þess?

Lát heyra!

 

Stikk: