Grínarinn Alan Partridge á hvíta tjaldið

BBC Films hafa fundið leikstjóra fyrir væntanlega kvikmynd um sérvitra sjónvarpsspekúlantinn Alan Partridge. Alan Partridge er leikinn, og búinn til, af meistara Steve Coogan, en karakterinn er afar vinsæll á Bretlandi.

Leikstjórinn Declan Lowney mun sjá um gerð myndarinnar, en tökur á henni hefjast í haust. Áætlað er að myndin komi út á næsta ári. Lowney er hvað þekktastur fyrir að hafa unnið að ýmsum breskum gamanþáttum, meðal annars Father Ted, sem við Íslendingar könnumst örugglega ekkert við. Hægt er að búast við því að Coogan eigi eftir að hafa mikið um leikstjórn myndarinnar að segja, enda bjó hann til karakterinn Alan Partridge með öllu eins og áður sagði.

Fyrir þá sem ekki vita er Alan Partridge sjónvarpsþáttakynnir á Bretlandseyjum, en Steve Coogan bjó til karakterinn fyrir útvarpsþáttinn On The Hour sem var útvarpað á BBC Four fyrir mörgum árum síðan. Partridge hefur síðan þá birst í fjölmörgum útvarpsþáttum og auglýsingum ásamt því að sjónvarpsseríur voru gerðar til þess að fylgjast með upprisu og falli ferils hans.

Ég er gríðarlegur aðdáandi þáttanna enda eru þeir ekta bresk kómedíusnilld. Ég hef oftar en ekki verið nálægt því að kasta upp úr af hlátri, ásamt því að einu sinni frussaði ég Sprite yfir sjálfan mig í miðjum þætti. Ég get vart beðið eftir myndinni, en það má líkja tilhlökkun minni eftir Alan Partridge: The Movie við eftirvæntingar Arrested Development aðdáenda fyrir væntanlegri AD kvikmynd.

Fyrir þá sem vilja fræðast meira um Alan Partridge mæli ég með klippunni hér að neðan.