Paranormal 3 fer beint á vídeó

Það virðast óvenjulega margir hafa sent okkur póst og forvitnast um hvenær hrollvekjan Paranormal Activity 3 kemur í kvikmyndahús á Íslandi en því miður þurfa íslensku aðdáendur seríunnar að sætta sig við það að bíða eftir DVD/Blu-Ray útgáfunni. Myndin fer semsagt ekki í bíó hérlendis þrátt fyrir að hinar tvær hafi verið sýndar núna síðasta og þarsíðasta vetur.

Eftir að undirritaður talaði við íslensku dreifingaraðila myndarinnar kom það í ljós að fyrstu tvær myndirnar fengu undarlega litla aðsókn í okkar kvikmyndahúsum, sérstaklega miðað við önnur lönd. Þær fóru beint á toppinn í heimalandi sínu og gerði hver mynd betri hluti í miðasölunni heldur en sú sem kom á undan. Á Íslandi var það aftur á móti öfugt og þess vegna hefur verið ákveðið að hætta alfarið við bíóútgáfu. Af einhverjum ástæðum hafa hrollvekjur sjaldan grætt mikið í bíó hér á landi. Ansi fúlt.

Paranormal Activity 3 fékk reyndar þrusufína dóma erlendis og er af mörgum talin vera sú besta í röðinni. Óvíst er hvenær myndin verður gefin út á vídeó hérlendis.