Wan myndin vinsælust í USA

Það kemur kannski ekki á óvart þar sem föstudagurinn 13. var nú á föstudaginn, en hrollvekjan Insidious Chapter 2 eftir James Wan er best sótta myndin í Bandaríkjunum þessa helgina. Um er að ræða framhald myndarinnar Insidious, sem Wan leikstýrði einnig. Það er gaman að nefna það að Wan er einnig leikstjóri vinsælustu myndarinnar á Íslandi í dag, hrollvekjunnar The Conjuring.

Insidious Chapter 2 fjallar um Lambert fjölskylduna sem er ofsótt af draugum. Fjölskyldan reynir nú að komast að dularfullu leyndarmáli úr barnæsku, sem hefur tengt þau hættulega sterkt við andaveröldina.

insidious

Talið er að tekjur af sýningum Insidious Chapter 2 yfir helgina alla muni nema 41 milljónum Bandaríkjadala, sem er tvöfalt betri niðurstaða en framleiðendur höfðu búist við, samkvæmt Deadline vefnum.

Fyrri myndin til samanburðar þénaði 13,3 milljónir dala á sinni frumsýningarhelgi.

Sjáðu stutt atriði úr myndinni hér fyrir neðan:

Ein mynd önnur var frumsýnd um helgina, í víðtækri dreifingu, mafíumyndin The Family, með þeim Robert De Niro, Michelle Pfeiffer og Tommy Lee Jones í helstu hlutverkum. Leikstjóri og handritshöfundur er Luc Besson.

Búist er við að tekjur myndarinnar muni verða um 13,9 milljónir dala yfir alla helgina. Það er svipað og framleiðendur höfðu vonast eftir, en þó í lægri kantinum. Myndin kostaði 30 milljónir dala í framleiðslu, og er þar með búin að ná næstum helmingnum af því til baka. Um er að ræða aðra bestu frumsýningarhelgi Luc Besson í Bandaríkjunum til þessa.

 

Hér fyrir neðan er áætlaður topp tíu listi helgarinnar:

1. Insidious: Chapter 2. 41 milljónir dala.

2. The Family. 13,9 milljónir dala

3. Riddick. 6,5 milljónir dala.

4. Lee Daniels’ The Butler. 5,5 milljónir dala.

5. We’re The Millers. 5,4 milljónir dala..

6. Instructions Not Included. 4,1 milljónir dala.

7. Planes 3D 2,9 milljónir dala.

8. One Direction: This Is Us. 2,4 milljónir dala.

9. Elysium. 2,2 milljónir dala.

10. Percy Jackson 2 3D 1,8 milljónir dala.