Þennan föstudaginn fáið þið áhugamenn viðtal við Óskar Jónasson. Ég spurði hann nokkura spurninga, þá sérstaklega út í myndina Sódóma Reykjavík frá árinu 1992.
Hvað tók langan tíma að gera myndina og hvað var erfiðast við framleiðsluna?
Upptakan tók fimm eða sex vikur, en handritsskrifin og undirbúningurinn spönnuðu tvö ár. Eftirvinnslan var síðan annað ár í viðbót. Það þykir ekki tiltökumál að ein svona kvikmynd taki þrjú ár í heildina, en ég var mjög óþolinmóður að koma henni á koppinn. Það sem mér þótti erfiðast var að fá ekki framleiðslustyrk frá Kvikmyndasjóðnum, þegar ég fyrst sótti um. Ég fékk hann svo ári síðar og ég held að það hafi verið mikið gæfuspor að fá þetta ár til að vinna betur í handritinu. Til dæmis var engin fjarstýring í upphaflega handritinu, Axel var bara að leita að Mæju systur sinni úti um allan bæ vegna þess að mamma hennar vildi að hún svæfi heima hjá sér! Titillinn á því handriti var ‘Vont Efni’ og þá var ég með landabruggið hans Mola í huga. Mig minnir meira að segja að ein útgáfan af handritinu hafi endað með brúðkaupsveislu Axels og Unnar í kirkju Óháða safnaðarins á Háteigsvegi…!
Hversu stór partur myndarinnar er spuni?
Í sjálfu sér var það ekki mjög stór partur, nema að sum samtölin voru fínpússuð á æfingum. En aftur á móti fólu æfingarnar í sér mikla spunavinnu. Við prufuðum allskonar atriði og uppákomur, sem ekki eru í handritinu til að undirbúa leikarana. Við hittum fólk sem við notuðum sem fyrirmyndir, skoðuðum krár og skemmtistaði sem veittu okkur innblástur. Dæmigerð æfing fól í sér að Axel prufaði að hanga heima með Mæju systur sinni, rífast um símann eða þau reyndu að taka til í herbergjunum sínum eða eitthvað álíka. Eða að þremenningaklíkan í Sódómu fór í bíltúr og talaði illa um allt og alla sem þeir sáu út um bílgluggana.
Hver er þín skýring á því að þetta er þekktasta kvikmynd Íslands?
Það er erfitt að segja, sennilega er það gálgahúmorinn. Þegar ég fékk ekki styrkinn hjá Kvikmyndasjóðnum, þá ákvað ég að gefa skít í hið opinbera og framleiða myndina eftir öðrum leiðum. Þá fór allt “velsæm“ út um gluggann og ég skrifaði bara nákvæmlega það sem mér datt í hug. Í þeirri yfirferð komu atriði eins og þegar Brjánsi stríðir Ella í kyndiklefanum, allt talið um vændið og klámmyndirnar og samtöl sem mér dytti ekki í hug að skrifa í dag. Eftir að ég byrjaði að eignast börn, hefur þetta allt orðið settlegra hjá mér. En eins og segi, þá fékk myndin framleiðslustyrk þannig að ekki virðist orðbragðið hafa farið fyrir brjóstið á ráðgjöfum Kvikmyndasjóðs. Síðan hjálpar það áreiðanlega myndinni að margt af þessu er byggt á raunverulegum atburðum, persónulegri reynslu og talsverðri innsýn inn í skemmtanaheiminn í Reykjavík á þessum árum. Þekking á viðfangsefninu er nauðsynleg fyrir handritshöfundinn.
Er handrit myndarinnar ennþá til eða einhverjir þekktir leikmunir sem stofustáss?
Já, ég á að eiga eina kópíu af lokahandritinu. Það er nokkuð skrautlegt, með teikningum og kroti. Það er nú kannski minna til af leikmunum. Ég á upprunalegu teikninguna af fuglinum sem er á veggspjaldinu. Mig minnir líka að Ingvar Þórðarson eigi brynjuna hans Ella Glussa einhversstaðar. Bíllinn hans Axels er því miður ryðgaður niður.
Hversu mikið efni var klippt úr myndinni?
Það var heilmikilu upphafsatriði hent, sem var einskonar titla-bakgrunnur. Þetta var ímyndað sjónarhorn gullfisks, ef honum væri hent í klósettið. Það byrjaði á því að myndavélin sveif ofan í klósett með iðandi vatni sem var að sturtast niður. Myndavélin þaut síðan í gegnum skólprör og holræsi og að lokum flaug hún út úr röri niðri í fjöru og endaði úti í sjó. Þetta þótti okkur í klippiherberginu geta valdið misskilningi, eins og að mamma Axels væri þá þegar búin að sturta fiskunum niður. Ég man líka eftir stuttu atriði undir lokin á myndinni með verkstæðisfólkinu sem Axel vann með. Þau komu út af verkstæðinu til að furða sig á því hvaða flóðbylgja og bátur þetta hafi verið í Elliðaánum. Síðan var auðvitað talsvert af setningum hér og þar sem fengu að fjúka, en kannski ekki mörg atriði í heild sinni.
Hvar voru atriðin inni í “Dúfnahólum 10“ tekin upp?
Inniatriðin voru tekin upp í leikmynd sem var smíðuð í Lauganestanga, þar sem Listaháskólinn er núna til húsa. Öll íbúðin var smíðuð þar, en útiatriðin voru tekin upp í Dúfnahólum 8, og líka atriðin á stigaganginum. Ég gekk úr skugga um að Dúfnahólar 10 væru ekki til, svo að fólkið þar mundi ekki lenda í endalausum fimmaurabröndurum. Nóg gekk nú á, þegar við sprengdum flugelda um miðja nótt, klukkan fjögur á mánudagsmorgni minnir mig. Þessi Dúfnahólabrandari byggðist á smá gríni í klíkunni minni. Þegar tónlistin hætti og ljósin voru kveikt á skemmtistöðunum, þá var hrópað „Stuðlasel 14!“. Það fóru ótal leigubílar í fýluferð með hópa af fólki í Stuðlasel á þessum árum. Við smíðuðum margar leikmyndir í Lauganestanga, til dæmis leyniskrifstofu Agga, sjoppuna í Hafnarfirði, búningsherbergið, anddyrið og miðasöluna í Sódómu, og allt sem gerðist inni í loftræstistokkunum. Sódómuskemmtistaðurinn var tekinn upp út um allan bæ, framhliðin var á Hlemmi og bakhliðin á Klúbbnum við Borgartún. Þar var líka aðalsalurinn og sviðið. Eldhúsið með brugggræjunum var svo á Kópavogshælinu.
Fóru einhverjir þekktir Íslenskir leikarar í áheyrnarprufu fyrir myndina en fengu ekki hlutverk?
Já já, nokkuð margir, ég vill þó ekki nefna nein nöfn. Það eru allskonar ástæður fyrir því hvers vegna einn leikari hentar betur en aðrir. Það getur oltið á mótleikurunum, samspili á milli leikaranna, en oftast snýst þetta um einhverskonar innsýn leikstjórans.
Hvernig finnst þér staðan á Íslenskri kvikmyndagerð í dag?
Ég leyfi mér alltaf að vera bjartsýnn. Þrátt fyrir skelfilegan niðurskurð á Kvikmyndasjóði þá eru margir góðir og efnilegir kvikmyndagerðarmenn á leiðinni. Áhuginn eykst stöðugt, fleiri og fleiri eru að fara í nám. Framboðið er alltaf meira og meira, en eftirspurnin er líka gífurleg. Íslenskir áhorfendur vilja sjá íslenskt efni og í seinni tíð hefur verið lögð meiri áhersla á handritagerð, bæði hjá Kvikmyndamiðstöð og líka hjá okkur kvikmyndagerðarmönnum. Við í Samtökum kvikmyndaleikstjóra höfum í nokkur ár starfrækt Handritasmiðju, þar sem við eyðum nokkrum helgum saman fyrir utan bæinn og ræðum handrit, reynum að hjálpa og þróa verkin hjá hvert öðru. Samtalið og samvinnan er okkar framtíðarvon.