Thor 2 fær leikstjóra

og er frestað…

Marvel staðfesti í gær að Patty Jenkins hefði verið ráðin í leikstjórastól Thor 2. Orðrómur þess efnis hafði verið uppi fyrir nokkrum vikum og svo virðist sem að Marvel séu sannfærðir um að hún sé rétta manneskjan í starfið. Fyrir það var talið að sjónvarpsleikstjórinn Brian Kirk, einn af þeim á bakvið fantasíuþættina frábæru Game of Thrones, myndi fá starfið en ekkert varð af því.

Í tilkynningunni kom einnig fram að myndinni hefur verið frestað um nokkra mánuði, og er nú væntanleg í bíó þann 15. nóvember 2013, en upphaflega átti hún að koma út 26. júlí það ár. Er þetta sennilega vegna fjölda svipaðra mynda sem hrannast hafa upp sumarið 2013, en í júlí hefði Thor 2 átt í samkeppni við Robopocalypse frá Steven Spielberg, Pacific Rim frá Guillermo del Toro, og Horizons frá Joseph Kosinski. Ekki skemmir svo fyrir að fá nokkra mánuði í viðbót til að vinna við myndina, Jenkins mun þurfa að flýta sér nóg þrátt fyrir þessa seinkun.

Jenkins á aðeins eina mynd að baki áður, Monster frá 2003, sem fleytti Charlize Theron að óskarsverðlaununum fyrir bestu leikkonu í aðalhlutverki. Hún hefur hinsvegar góða reynslu úr sjónvarpi, og hefur leikstýrt þáttum af Arrested Development, Entourage, og nú síðast Pilot-þættinum af sakamálaþáttunum The Killing, sem er endurgerð á dönsku þáttunum Forbrydelsen. Marvel eru þekktir fyrir að taka ákveðna áhættu við að fara ótroðnar slóðir þegar þeir ráða leikstjóra og hingað til hefur það komið vel út. Kenneth Branagh var ekki beint sá fyrsti sem fólki datt í hug heldur þegar að hann var ráðinn til að leikstýra fyrstu myndinni. Og fyrir litla feministann í okkur öllum er alltaf gaman þegar að kvenleikstjórar fá tækifæri við eitthvað annað en rómantískar gamanmyndir.

Tilkynningin staðfestir að Chris Hemsworth snúi aftur sem Thor, Tom Hiddleston sem Loki og að Natalie Portman sé væntanleg í hlutverk Jane Foster aftur. Efasemdir höfðu verið uppi um hvort hún myndi taka þátt, en hún átti sitt fyrsta barn fyrr á árinu. Staðfestar Marvel myndir sem eru væntanlegar eru þá The Avengers 27. apríl 2012, Iron Man 3 í maí 2013, og svo Thor 2, 15. nóvember 2013.