The Exorcist og A Clockwork Orange hönnuður látinn

Bill Gold, hönnuður margra af frægustu plakötum kvikmyndasögunnar, er látinn, 97 ára að aldri. Hann er best þekktur fyrir plaköt sín fyrir kvikmyndirnar Casablanca, The Exorcist, A Clockwork Orange, Deliverance, Alien, Dirty Harry og A Streetcar Named Desire. Þá gerði hann hundruð annarra plakata, sem mörg hver voru jafn fræg og kvikmyndirnar sjálfar.

Gold stundaði nám við Pratt Institute og byrjaði að hanna hjá Warner Bros kvikmyndaverinu, en annað verkefni hans þar var að hanna plakat fyrir mynd sem átti eftir að verða sígild, Casablanca frá 1942 með Humphrey Bogart og Ingrid Bergman í aðallutverkunum.  Hann hélt áfram að starfa við grafíska hönnun eftir seinni heimsstyrjöldina, og gerði þá plaköt fyrir myndir eins og Strangers on a Train og Rebel Without a Cause á sjötta áratugnum. Eftir það, eða þegar komið var fram á sjöunda áratug síðustu aldar,  stofnaði hann eigin teiknistofu, Bill Gold Advertising.

Á þeim árum gerði hann plakötin fyrir A Clockwork Orange, The Exorcist og síðar Alien.

Hann vann sem plakatahönnuður í meira en 70 ár, og mest fyrir Warner Bros. studios, og síðar framleiðslufyrirtæki Clint Eastwood, Malpaso Productions.  Áður en yfir lauk hafði Gold haft yfirumsjón með hönnun á meira en 30 plakötum fyrir kvikmyndir Clint Eastwood, en síðasta plakatið fyrir Eastwood var fyrir hina ævisögulegu kvikmynd J. Edgar árið 2011. 

Eastwood sagði um Gold þegar hann fékk The Hollywood Reporter verðlaunin árið 1994: „Ég veit ekki hvað er það fyrsta sem vekur áhuga manna á kvikmyndum, hvort það eru leikararnir, heitið, eða þessi fyrsta mynd. Ég held að það sé blanda af þessu öllu. Það er þessi skapandi þáttur plakathönnunarinnar – myndin og hvernig hún hefur áhrif á fjöldann.“

Gold fékk verðlaun Pratt Institute fyrir ævistarfið árið 2013, og var meðlimur í akademíunni  svokallaðri, eða The Academy of Motion Picture Arts and Sciences, sem og The Society of Illustrators og The Art Directors Club.