
Leikstjórinn Baldvin Z vinnur nú að gerð fjögurra þátta sjónvarpsseríu um ævi Vigdísar Finnbogadóttur fyrrverandi forseta Íslands.
Verkefnið verður betur kynnt á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg snemma í febrúar. Á vef Variety er greint frá því að í þáttaröðinni verði fylgst með Vigdísi frá æskuárum hennar og þar til hún var kjörin fyrsti kvenforsetinn í heiminum árið 1980.
Verkefnið hefur verið lengi í bígerð en fréttavefurinn Klapptré sagði fyrst frá þessum fyrirætlunum 2014.
Nína Dögg Filippusdóttir leikur Vigdísi á fullorðinsárum en Baldvin segir ekki enn ákveðið hver túlki hana á menntaskólaárunum.
Ágústa Ólafsdóttir og Rakel Garðarsdóttir hjá Vesturporti framleiða þættina í samstarfi við Hörð Rúnarsson hjá Glassriver og Arnbjörgu Hafliðadóttur. Fjölmiðlakonan og handritshöfundurinn Björg Magnúsdóttir, Ágústa og Jana María Guðmundsdóttir munu skrifa handritið að þáttunum.
Ráðgert er að þættirnir fari í framleiðslu á síðari hluta 2021 eða fyrri hluta 2022.