Tekur gömlu myndina í görnina

Klárlega ein óvæntasta mynd ársins 2012 að mínu mati. Það tæki langan tíma til að kafa ítarlega ofan í svartsýnina sem einkenndi væntingar mínar áður en ég sá hana. Kannski var þetta bara forritað í mann fyrirfram að eftir misheppnaðar tilraunir til þess að endurgera gamlar Schwarzenegger-myndir hlaut ekki annað að koma til greina en að sama myndi gerast fyrir úldna mynd með Sly Stallone. Kemur svo í ljós að endurræsingin er alls ekki Dredd-fúl. Langt frá því reyndar. Þetta er dúndurfín B-mynd og ef borin saman við aðrar subbulegar myndasögumyndir á smærri skala hef ég ekki fengið jafnmikla skyndiánægju úr slíkri síðan ég sá Blade II fyrir rúmum áratugi síðan. Hún gerir að minnsta kosti fleira rétt heldur en rangt. Og þetta helsta sem hún gerir rétt þykir mér rokka nú bara nokkuð feitt.

Maður sér það að mikill áhugi fór í myndina, en þá erum við náttúrlega tala um mynd sem er ekki beinlínis gerð fyrir akademíska kvikmyndafræðinga… nema þessa sem fíla það ljótt, brútalt og grunnt annað slagið. Judge Dredd-vörumerkið er miklu svalara heldur en komst nokkurn tímann til skila í Stallone-myndinni frá ’95. Sú mynd – sem ég hef lengi kallað Just Dreddful – gerði það ekki beint erfitt fyrir leikstjórann Pete Travis (sem er ábyrgur fyrir guilty pleasure-steypunni Vantage Point), handritshöfundinn Alex Garland (28 Days Later…, Sunshine) og vanmetna töffarann Karl Urban að koma með eitthvað betra, en það gerðu þeir án þess að svitna við það. Nýja Dredd-myndin gengur öll upp vegna þeirra samvinnu; sumsé traustum leikstjórnarstíl sem veit alveg hvernig skal fara með efnið, kúl handriti sem kemur sér beint að málinu og leikara sem heldur fjörinu uppi með alvarleika, sterkri nærveru og grjóthörðum kjálka og munnsvip sem stýrir frammistöðunni.

Dredd er meiriháttar karakter! Ef karakter skyldi kalla. Grafalvarlegur, beinskeyttur og stórskemmtilega þurr. Semsagt ofurlöggan eins og maður vill helst hafa þær og það er ljúf tilbreyting frá upprunalegu myndinni að hjálmurinn er aldrei tekinn af honum. Urban er ekki bara svalur, heldur andar hann frá sér einbeittri fagmennsku og lifir sig inn í hlutverkið allan tímann. Töffarasvitinn væri sjáanlegur ef hann væri ekki í þessum þykka búningi – sem er miklu flottari og hagnýtari en ofurhetjugallinn sem Sly klæddist. En meira að segja sem ofvaxinn „bobble head“ gaur tekst Urban að stall-owna Sly á allan hátt, þó það þurfi ekki mikið til. Einnig nýtur hann góðs af Oliviu Thirlby, sem kemur ansi vel út sem nýliðapían sem slæst í för með honum. Dauða samspil þeirra hefur sinn sjarma ef maður finnur hann en umfram allt er hún örugg og hugrökk á sinn eigin veg. Lena Headey, sem venjulega þiggur ekki týpísk kvenhlutverk, hellir ofan í sig tíkarlegu geðveikina sem er ætlast til af henni en hefði samt getað gengið lengra með hlutverkið. Persónan hennar felur margt gott í sér en kemur samt eiginlega beint úr geymslunni.

Sú gamla var (léleg) Stallone-mynd. Þetta er alvöru Dredd-mynd! Einföld, dökk, grimm og betri að öllu leyti þó svo að hún gæti varla verið ólíkari hinni. Þetta er skuggalegur og skemmtilegur afrakstur þess ef Dredd-dómari myndi yfirtaka bíómynd sem hefur hrært saman Die Hard og The Raid, með dópaðri framtíðarsýn í kaupbæti. Einfaldleikinn er bæði kostur og galli en myndin notfærir sér beinagrind sína til að sleppa öllu kjaftæði og snúa sér að því mikilvæga, en á móti því ristir hún svo grunnt (en án þess að vera fullkomlega dýptarlaus) að hún tórir ekki lengi í minninu eftir að hún er búin. Það er meira af beinum heldur en kjöti og þess vegna líður manni hálftómum eftir hana. Hún missir líka aðeins dampinn upp úr miðju og hefði mátt vera dýrari og meira fullnægjandi sem pjúra hasarmynd, en á góðu nótunum sést að hún hefur notfært sér takmarkaða fjármagnið sitt eins vel og hún gat. Og frekar en að gera eitthvað örlítið af stóru þá gerir hún í staðinn mjög mikið af litlu. Það er engin „standout“ hasarsena en púlsinn helst þó stöðugur.

Músíkin kemur vel út með sóðaskapnum og gefur myndinni líflegan takt. Síðan er kvikmyndatakan eitt af því sem skarar fram úr öllu öðru. Travis stillir upp römmum til að minna áhorfendur reglulega á að þetta eigi að vera eins og hasarblað á hreyfingu. Það sést líka að þessi mynd hefur verið „storyboard-uð“ í drasl. Við vélina situr nokkur Anthony Mantle, sem skaraði mikið fram úr með hráum  upptökustíl í myndum eins og Last King of Scotland, Slumdog Millionaire og 127 Hours. Hann er alveg rétti gæinn fyrir þessa mynd og skýtur hana þannig að skörpu rammarnir poppi allir út, þrátt fyrir allt myrkrið. Stærsta hrósið fer samt allt til Slo-Mo skotanna. Þau jaða við það að vera ofnotuð, en þau eru samt notuð á svo stílískan hátt að mér er eiginlega sama.

Þessar 90 mínútur þjóta burt vegna þess að það er alltaf eitthvað í gangi. Lopinn er teygður en sjónrænu kostirnir bæta úr því með… tja… STÆL! Últra-ofbeldið spillir heldur ekki fyrir. Dredd er ekki að fara að minna neinn á það hvað það er sem við elskum öll við bíómyndir en afþreyingargildið er í góðu lagi og Urban smellpassar í hjálminn. Ég hefði alls ekkert á móti öðru svona ofbeldispartíi með þessum gæja.


(7/10)