Teiknimyndin Tangled hrifsaði til sín efsta sætinu á Íslandi um nýliðna helgi, og það með stæl. Myndin, sem var frumsýnd um síðustu helgi, og endaði þá örlitlu fyrir neðan The Green Hornet, gerði sér lítið fyrir og jók tekjurnar um 9% á milli helga og endaði í langefsta sæti með tæpar 4,2 milljónir í tekjur af um 4.500 áhorfendum. The Green Hornet þurfti því að sætta sig við að fá aðeins eina helgi í hásætinu, og varð önnur í röðinni nú, með tæpar 2 milljónir (um 1.800 áhorfendur) í kassanum. Alls hafa yfir 11.000 áhorfendur séð Tangled á aðeins tveimur vikum, og mun hún áreiðanlega verða með stærstu teiknimyndum ársins ef áfram heldur sem horfir.
Um helgina voru Óskarskeppinautarnir The King’s Speech og The Fighter að keppa um hylli áhorfenda á frumsýningarhelgi sinni hér á landi, og hafði málhalti konungurinn örlítið betur þegar upp var staðið. Um 1.500 áhorfendur færðu myndinni rúmar 1,5 milljónir í tekjur og þriðja sætið á listanum á meðan The Fighter þurfti að sætta sig við um 1,1 milljón og 1.150 áhorfendur í sjötta sætinu. Á milli þeirra var Klovn: The Movie og svo þriðja nýja myndin, gamanmyndin The Dilemma, en báðar voru þær hársbreidd á eftir The King’s Speech, með rúmar 1,5 milljónir í tekjur. Alls er Klovn-myndin komin yfir 38.000 áhorfendur á ungu árinu og verður án efa meðal 5-10 vinsælustu mynda ársins þegar upp verður staðið.
Annars dró það helst til tíðinda að Gauragangur komst yfir 10.000 áhorfenda markið, en hún situr nú í 16. sætinu og mun ekki fara langt upp í viðbót. Gamlingi vikunnar á topp 20-listanum er svo Megamind, sem er enn í 14. sætinu eftir 7 vikur á lista, en hún og Little Fockers munu án efa fara yfir 20.000 áhorfenda markið áður en þær ljúka göngu sinni í bíóum.
Um næstu helgi verða svo fjórar nýjar myndir frumsýndar, hin Óskarstilnefnda Black Swan, köfunartryllirinn Sanctum, breska spennumyndin London Boulevard og fyrsta þrívíddarteiknimyndin um Múmínálfana, Múmínálfarnir og halastjarnan.
Hverju eruð þið spenntust fyrir?
-Erlingur Grétar