Feðraveldinu umturnað

Breska kvikmyndastjarnan Keira Knightley hefur verið ráðin í aðalhlutverk kvikmyndarinnar Misbehaviour, eða Óþekkt í lauslegri íslenskri þýðingu, en þar er á ferðinni sönn saga af Ungfrú heimur fegurðarsamkeppninni árið 1970.

Framleiðendur myndarinnar eru þeir sömu og gera Netflix þættina vinsælu The Crown, Left Bank Pictures og Pathe, og leikstjóri er tvöfaldi BAFTA vinningshafinn Philippa Lowthorpe ( Three Girls ), sem er önnur af aðeins tveimur konum sem unnið hafa BAFTA verðlaunin fyrir leikstjórn.

Gugu Mbatha-Raw og Jessica Buckey munu einnig leika í kvikmyndinni, sem gerist í Lundúnum þegar Ungfrú heimur er vinsælasta sjónvarpsefni í heiminum með um 100 milljón áhorfendur. Kynnir keppninnar var bandaríski kvikmyndaleikarinn Bob Hope.

Kvenréttindahreyfingin, Women´s Liberation Movement, sem var nýstofnuð á þessum tíma, gagnrýndi keppnina fyrir að gera lítið úr konum. Hreyfingin hlaut heimsathygli með því að ráðast inn á keppnissviðið og trufla beina útsendingu keppninnar. Og til viðbótar, þegar haldið var áfram með keppnina eftir uppþotið, þá sigraði ekki sú sem allir höfðu spáð sigri, ungfrú Svíþjóð, heldur vann ungfrú Grenada, og varð þar með fyrsta þeldökka konan til að verða Ungfrú heimur.

Eins og segir í frétt The Hollywood Reporter af málinu þá var á einungis tveimur tímum, feðraveltinu bylt, og hugmyndum um vestræna fegurð sömuleiðis.