Í stuttu máli er “Us” vel þess virði að sjá en veldur smá vonbrigðum engu að síður.
Jeremía 11:11 í Gamla testamentinu kveður svo: „Fyrir því segir Drottinn svo: Sjá, ég leiði yfir þá ógæfu, er þeir ekki skulu fá undan komist, og er þeir þá hrópa til mín, mun ég ekki heyra þá.“ Í raun súmmera þessi Guðs orð ágætlega framvinduna sem raungerist í „Us“, annarri mynd leikstjórans Jordan Peele sem sló svo eftirminnilega í gegn með tryllinum „Get Out“ (2017).
Fyrrnefnt Biblíuvers sést greinilega á förnum vegi þegar hin unga Adelaide (Madison Curry) verður viðskila við foreldra sína í skemmtigarði og nemur staðar í speglasal. Þar verður hún fyrir furðulegri lífsreynslu sem hefur djúpstæð sálræn áhrif á hana sem hún þó nær að vinna bug á.
Á fullorðinsárum hefur Adelaide (Lupita Nyong‘o) komið sér ágætlega fyrir með eiginmanninum Gabe (Winston Duke) og börnum þeirra Zoru (Shahadi Wright Joseph) og Jason (Evan Alex). Fjölskyldan heldur í sumarhús til að verja gæðastund saman en undarleg atburðarrás tekur fljótlega við. Önnur fjölskylda sem virðist vera að mestu tvífarar þeirra ræðst inn á heimili Adelaide, Gabe og barnanna og hyggst drepa þau. Þá eiga þau fótum fjör að launa en í ljós kemur að hryllingurinn teygir anga sína víðar en í fyrstu leit út fyrir.
Það er erfitt að fjalla um „Us“ án þess að spilla fyrir atburðarásinni en óhætt er að segja að Peele kemur hér með frumlega nálgun á margtugginn efnivið og heldur áhorfandanum í stöðugri óvissu um hvað gerist næst. Í raun er þetta sáraeinföld hryllingsmynd en öll umgjörðin gerir hana torskilna og fær mann til að halda að mikil pæling sé á bak við allt. „Get Out“ kom mikið inn á samspil kynþátta og fordóma en draga má þá ályktun að stéttaskipting sé Peele ofarlega í huga hér. Hvernig sem líður þá er frekar erfitt að melta allt sem fyrir augum ber með einu áhorfi og án efa er áhorfandinn verðlaunaður leggi hann í mikla púslvinnu með frekara glápi. Þrátt fyrir það fannst rýni þó ákveðnir hlutir í atburðarrásinni fá óþarflega mikla útskýringu á meðan aðrir hlutir voru skildir eftir alveg í lausu lofti. Erfitt er að gera öllum til geðs þegar kemur að þessum hluta.
En „Us“ er afar vel unnin mynd og stemningsrík þegar hún vill vera það og Peele fer létt með að búa til magnað andrúmsloft og keyra upp spennuna. Sterkt samspil tónlistar og klippingar búa til margar fínar stakar senur sem fá hárin til að rísa og blóðið til að renna; það er mikið í þennan kvikmyndagerðarmann spunnið og sér hann einnig um handritagerð hér. En „Us“ virkar bara úthugsuð til hálfs og fögur umgjörðin fær áhorfandann til að halda að meira sé á bak við atburðarásina en raun ber vitni. Skýringarnar sem fást valda talsverðum vonbrigðum en stóra fléttan er vel leyst (og rýnir skal fúslega viðurkenna að hann var frekar spældur út í sjálfan sig að hafa ekki kveikt á perunni en áhorfandinn fær góðan séns á að leysa hana) þó mikið mikið er enn á huldu þegar yfir lýkur.
Þá er bara eftir að mynda sér skoðun á leikarahópnum, en Nyong‘o er hreint mögnuð í tveimur rullum sem kalla á mikil tilþrif og Joseph og Alex standa sig frábærlega einnig. En Duke er hreint óþolandi í hlutverki eiginmannsins og kjánaleg viðbrögð hans og tilsvör eiga það oftar en ekki til að drepa niður þá drungalegu stemningu sem náðst hefur; Peele þarf aðeins að fínpússa hvar best sé að smeygja inn húmor sem þessum en það er alltof mikið af honum hér.
Heilt yfir er „Us“ vel þess virði að sjá en þónokkur vonbrigði samt sem áður.