Steikt, litrík og stutt

Einkenni Dr. Seuss-bókanna voru oftast þau sömu; persónur voru ýktar, heimurinn furðulegur, frásögnin einföld og boðskapur sterkur og áberandi. Bækurnar voru mjög stuttar og er það ein af ástæðunum af hverju það hefur ekki gengið svo vel að gera bíómyndir úr þeim.

Ég veit heldur ekki hvaða aulum fannst það sniðug hugmynd að búa til leiknar myndir eftir þekktustu bókunum. The Grinch og The Cat in the Hat voru ofsalega slakar og teygðist stöðugt á litlu innihaldi svo úr því var bara óhugnanlega yfirdrifinn hamagangur með sniðugri en fráhrindandi förðun og öskrandi sviðsmyndum. Svo kom Horton Hears a Who, sem sýndi að það væri billjón sinnum hentugra að segja Dr. Seuss sögu með nútímalegu teiknimyndaformi. Vandamálið með þunna sögu mun aldrei hverfa, en þegar maður sér hvað tölvur geta gert með þessar ýktu hönnunarhugmyndir eykst sýru- og litatrippið alveg svakalega mikið – á góðan hátt.

Bókahöfundurinn hefði sjálfur fengið flogakast ef hann hefði séð hversu brjálaða hluti er hægt að gera í dag með þessa heima sem hann bjó til. Með hverju ári verða tölvuteiknimyndir aðeins flottari, og út af því að The Lorax er nýjasta Dr. Seuss-myndin, þá að sjálfsögðu er hún sú alflottasta til þessa.

Engin Dr. Seuss-saga hefur komið betur út í bíómyndaformi heldur en þessi. Sagan er að sjálfsögðu grautþunn en uppfyllingarnar eru ekki eins vandræðalega augljósar. Og fyrir utan að vera flottari þá er The Lorax líka steiktari og rennur betur í gegn heldur en hinar þrjár. Það sem þessi hefur líka sem hinar höfðu ekki eru söngatriði, og þau gera alveg helling fyrir þessar 70-80 mínútur. Flest þeirra eru súr, hress og bilað skemmtileg. Myndin nær líka flottum hápunkti með laginu How Bad Can I Be? Atriðið er að vísu ekkert að fela skilaboð sögunnar, frekar en öll myndin.

Sagan um The Lorax vill minna fólk á það hvað náttúran okkar er mikilvæg. Boðskapurinn í Dr. Seuss-sögum hefur alltaf verið vandlega stafaður út, en hér er gert svo miklu meira en það (fyrir utan það að stafa hann út, BÓKSTAFLEGA, með textaspjaldi í lokin). Skilaboðunum – eða öllu heldur samfélagsádeilunni – er lamið svo grimmt ofan í hausinn á áhorfandanum að öll myndin jaðar hreinlega við það að vera áróður. Að minnsta kosti er þetta skemmtilegur áróður og jafnvel þó að sagan sé grunn þá er uppsetningin á henni þægilega óhefðbundin (athyglisvert að sjá líka hvað titilkarakterinn kemur stærri sögunni lítið við). Illmennið er að vísu þreytandi enda nánast beint tekið úr uppskriftarbók.

The Lorax er kannski ofureinföld og dýptarlaus á marga vegu en hún er líka fyndin, léttgeggjuð, undarleg og regnbogalitrnir verða sjaldan leiðinlegir á augun. Fínasta lita- og sýrutripp fyrir alla fjölskylduna, og að mínu mati örlítið ferskari og skemmtilegri heldur en Despicable Me (myndirnar koma úr sömu smiðju), þó kannski ekki eins hlægileg og heillandi.

 

Ég held að það sé öruggt að lækka þessa einkunn um eitt eða jafnvel tvö númer ef þið sjáið myndina á íslensku.