Leiksigur í meðalgóðri Marilyn-mynd

Mér finnst oft pirrandi þegar leikarar reyna að túlka frægar fígúrur eða persónur án þess að líkjast þeim eitthvað sérstaklega eða ná töktunum þeirra. Sem betur fer virðist Michelle Williams gera sér grein fyrir því að hún er ekkert voðalega lík Marilyn Monroe, einni ómótstæðilegustu stórstjörnu fyrr og síðar, en hún leggur svo mikið á sig til að ná framkomunni, sjarmanum og hegðuninni að útlitið breytist í algjört aukaatriði (sem er ansi magnað, miðað við það að útlitið skipti gelluna miklu máli í raunveruleikanum). Stundum er það nefnilega öfugt og stundum tekst leikurum að hitta í mark með hvoru tveggja. Williams hittir naglann klárlega á höfuðið, og þá í mynd sem veðjar öllu sem hún hefur á frammistöðu hennar. Ef Monroe hefði ekki virkað, þá hefði My Week with Marilyn verið miklu auðgleymdari mynd en hún er.

Myndin er reyndar ofsalega ljúf og stundum mjög skemmtileg en jafnvel þeir sem vita ekkert um stjörnuna eða líf hennar vita alveg hvert sagan í myndinni stefnir og hvernig hún mun enda. Megináherslan er krúttleg „ástarsaga“ um ungan pilt sem verður dáleiddur af töfrum leikkonunnar og nær rétt svo að kynnast því hvernig hún er þegar myndavélarnar eru ekki beindar að henni. Þetta á sér allt saman stað í miðjum tökum á myndinni The Prince and the Showgirl (fínasta mynd) sem Sir Laurence Olivier lék í og leikstýrði.

Á blaði, eða í þessu tilfelli, bókum sem skrifaðar eru af Colin Clark, sem myndin fjallar um, er sagan geysilega merkileg enda ætti ekki að vera erfitt að gera athyglisverða sögu sem snýst um leikkonu sem var nánast alveg einstök í sinni röð en eftir að myndin kláraðist sat ég næstum hreyfingalaus. Myndin reynir sem sagt að vera áhrifaríkari og fallegri heldur en hún er, en aðeins Williams hlýtur þá lýsingu. Maður hættir eiginlega að spá í allt annað þegar hún lýsir upp skjáinn. Það getur auðvitað líka þýtt að flestallt í kringum hana hafi bara verið svona óspennandi.

Reyndar eru skemmtilegustu kaflarnir í fyrri helmingnum en kannski er ég bara svona háður hobbýinu mínu að mér fannst allt sem gerðist á tökusettinu vera áhugaverðara en það sem gerðist utan þess. Ég er (augljóslega?) mikill áhugamaður um kvikmyndagerð, en reyndar er ég líka unnandi Monroe, og það olli mér miklum vonbrigðum hvað myndin varð sífellt bragðdaufari eftir því  sem leið á hana. Hún er voðalega mikið á öruggu, dúnmjúku hliðinni og á rúmum 90 mínútum er ekki mikið pláss eftir fyrir mikla dýpt eða huggulegt drama.

Mín vegna hefði handritið alveg mátt vera innihaldsríkara, ef ekki bara til að gefa aukapersónunum aðeins ríkulegri prófíla. Ég hafði nefnilega nokkuð gaman af flestum leikurunum, sérstaklega þeim Kenneth Branagh (í hlutverki Sir Laurence) og Judi Dench. Branagh er dásamlegur þrátt fyrir tvívíðan karakter, ef svo má segja. Svo stöku sinnum glyttir í Juliu Ormond og Emmu (frú Hermione sjálfa) Watson, en báðar fá varla meira en uppstækkuð gestahlutverk þegar þær áttu svo miklu betra skilið.

Eddie Redmayne er að vísu fínn sem Colin Clark en ekkert framúrskarandi. Hann er viðkunnalegur, sakleysislegur og maður skilur auðveldlega hvers vegna hann velur Williams fram yfir Watson snemma í sögunni. Það er alls ekki erfitt að setja sig í spor einstaklings sem missir hér um bil vitið úr hrifningu gagnvart Monroe. Sjálfur hefði ég eflaust hent mér á fjórar fætur og þóst vera fótaskemillinn hennar bara til að vera nálægt henni. En ef Clark hefði ekki skrifað sögurnar sjálfur frá sínu eigin sjónarhorni hefði ég miklu frekar verið til í að sjá meira af samskiptunum á milli Olivier og Monroe. Mjög óraunsæ og nördaleg krafa, en það sýnir bara hversu góðir leikararnir voru.

Þetta er svei mér þá blandaður poki. Myndin er svo hrikalega vel leikin og indæl til áhorfs að það er erfitt að dást ekki svolítið að henni, en ef henni er skellt á krufningarborðið má auðveldlega sjá að þetta er ekkert eitthvað sérstætt sem mun lengi lifa í minninu. Þetta er afbragðstækifæri fyrir Williams til að sýna enn og aftur að hún er stórkostleg leikkona. Ætli hæfileikarnir hafa ekki bara borist gegnum líkamsvessa Heaths Ledger? Síðan Brokeback Mountain hefur hún allavega orðið betri og betri með hverju ári.


(6/10)