Star Wars beint á toppinn í Bandaríkjunum

Mynd leikstjórans J.J. Abrams, Star Wars: The Rise of Skywalker, mokaði til sín um níutíu milljónum Bandaríkjadala í miðasölunni í Banaríkjunum í gær föstudag, sem þýðir að heildartekjur myndarinnar yfir helgina alla þar í landi gætu orðið 190 milljón dalir.

Rey og hennar fríða föruneyti.

Kvikmyndin er lokakafli „framhaldsþríleiksins“ í Stjörnustríðsbálknum, og síðasta myndin í sögu Geimgengilsfjölskyldunnar, sem eins og það er orðað í gagnrýni Stefáns Gunnars Sveinssonar í Morgunblaðinu, hefur náð að
vera „í miðju allra meginatburða heillar vetrarbrautar í þrjár kynslóðir“.

Spár um 190 milljón dala tekjur á frumsýningarhelgi, þýða að myndin er að ná verri árangri á frumsýningarhelgi sinni en síðasta Star Wars kvikmynd, en mynd Rian Johnson, Star Wars: The Last Jedi, rakaði saman um 220 milljónum dala á sinni frumsýningarhelgi í Bandaríkjunum.

Mynd J.J. Abrams frá 2015, Star Wars: The Force Awakens, gerði enn betur á sinni frumsýningarhelgi, en tekjur hennar námu á þeim tíma 248 milljónum dala.

En 190 milljón dala tekjur er samt sem áður fantagóður árangur, og er þriðja besta aðsókn á kvikmynd í desember í Bandaríkjunum, en fyrrnefndar tvær Stjörnstríðsmyndir eru í fyrsta og öðru sætinu.

Af öðrum nýjum kvikmyndum í bíó í Bandaríkjunum er það að segja að Cats, sem er kvikmyndagerð á söngleik Andrew Lloyd Webber, hefur verið að fá slæma dóma, og náði aðeins fjórða sætinu í gær föstudag í Bandaríkjunum, á lista yfir tekjuhæstu kvikmyndir. Myndir sem hafa verið í sýningum undanfarnar vikur, Jumanji: The Next Level og Frozen 2 sitja í öðru og þriðja sæti listans.