Í stuttu máli er “Avengers: Endgame” flott ofurhetjumynd sem því miður reiðir sig á tímaflakk til að slútta öllu.
Stríðsherra plánetunnar Titan, Thanos (Josh Brolin), stóð við stóru orðin og notaði töfrasteinana sex (Infinity Stones) til að þurrka út helming alls lífs á jörðinni til að ná fram fullkomnu jafnvægi í vetrarbrautinni. Iron Man/Tony Stark (Robert Downey Jr.), Captain America/Steve Rogers (Chris Evans), Black Widow/Natasha Romanoff (Scarlett Johannson), Thor (Chris Hemsworth), Rocket (Bradley Cooper), War Machine (Don Cheadle) og Captain Marvel (Brie Larson) halda til plánetunnar þar sem Thanos heldur sig og komast að raun um að það er of seint að bjarga hlutunum þar sem töfrasteinarnir hafa verið eyðilagðir.
Lífið heldur samt áfram fyrir hinn helminginn og fimm árum síðar eru hetjurnar enn að jafna sig á aðstæðum og eru á mismunandi stöðum í tilverunni. En vonarglæta birtist þegar Ant-Man/Scott Lang (Paul Rudd) þeytist út úr hálfgerðri tímavél og fyrir hann voru síðustu fimm ár bara eins og nokkrar mínútur. Skyndilega getur teymið tekið höndum saman á ný og mögulega komið í veg fyrir voðaverk Thanos með skipulögðu tímaflakki.
Það var vitað mál að hinn svakalegi endir í „Avengers: Infinity War“ (2018) gat ekki haldist og því var maður nokkuð viss um að tímaflakk kæmi við sögu í „Endgame“. Það er ávallt ódýr lausn og sama hve mikið hún er fegruð með alls kyns hnyttnum tilvitnunum í „Back to the Future“ (1985) og flóknum útskýringum þá er hún líka hræódýr hér. Ekkert þarf að vera endanlegt og því má í raun hvaða framvinda sem er eiga sér stað og valda uppnámi því það er bara alltaf hægt að snúa því við … einhvern veginn. En ef áhorfendur sætta sig fullkomnlega við þessa framvindu þá bíður þeirra mikið sjónarspil, dúndurfyndin atriði og heljarinnar hasarsenur í svaka uppgjöri ofurhetjanna við stríðsherrann Thanos og herlið hans.
„Avengers: Endgame“ er tuttugasta og önnur Marvel myndin á 11 árum og hún markar ákveðin tímamót. Sögur nokkurra hetjanna eru komnar á leiðarenda á meðan aðrar eru að stíga sín fyrstu skref og ber myndin þess skýr merki að vera í senn einskonar upphafs- og endamynd. Þriggja klukkustunda sýningartími er helst til of mikill og sér í lagi er niðurlagið mikið teygt en öllu er til tjaldað til að framreiða hina einu sönnu ofurhetjusamkomu með stæl. Það vantar ekki að hasarinn er mikill, dramatíkin í hæsta gír og húmorinn er aldrei langt undan. Mikill húmor hefur einmitt verið helsti styrkleiki Marvel ofurhetjuheimsins og hér sjá Thor, Ant-Man og Hulk/Bruce Banner (Mark Ruffalo) helst um að kitla hláturtaugarnar. Það kemur pínu aftan að manni að hafa ekki séð allar hinar myndirnar í Marvel heiminum (þá sérstaklega „Ant-Man and the Wasp“) og vafalaust er hörðustu aðdáendunum launað með ýmsum skírskotunum sem er eingöngu á færi þeirra að koma auga á.
Meistarastykki eða meðalmoð
Þegar til kastanna kemur þá er „Avengers: Endgame“ hin besta skemmtun en allt stússið í kringum tímaflakkið skemmdi mikið fyrir hjá þessum rýni að minnsta kosti. Vissulega voru skondin atriði hér og þar en áhorfandinn situr uppi með helling af spurningum í lokin sem myndin nær engan veginn að færa tæmandi rök fyrir. Þá er einnig hægt að draga í efa að ákveðin framvinda sem kom heldur betur á óvart reynist vera endanleg og það er alltaf ferlega fúlt.
Taka skal fram að þegar þetta er skrifað þá er myndin í áttunda sæti á IMDB listanum með 9.0 í einkunn. Meistarastykki eins er meðalmoð annars og ef þessi rýnir ætti að gefa henni einkunn væri hún 6.5.