Særðum Anthony Hopkins spáð toppsætinu

Nýjustu mynd Anthony Hopkins The Rite, er spáð toppsætinu á aðsóknarlista helgarinnar í bandarískum bíóhúsum. Myndin, sem er hryllingsmynd, verður sýnd í einum 2.985 bíósölum og fjallar um ungan efasemdarprest sem þarf að framkvæmda særingu á persónu Hopkins í myndinni. Aðstandendur myndarinnar eru að vonast til að særingaráhuginn sem vaknaði síðasta sumar með myndinni The Last Exorcism sé enn fyrir hendi, og fólk muni streyma í bíó.
Talið er að myndin muni höfða sterklega til kaþólikka og sérstaklega kaþólikka af spænsku bergi brotnu. Forsýningar hafa sýnt að myndin höfðar sterkt til kvenna yfir 25 ára.

Myndin From Prada to Nada frá Lionsate fyrirtækinu, opnar um helgina í 256 bíóum, og þar er markhópurinn ungar spænskumælandi konur, samkvæmt frétt frá Hollywood Reporter. Myndin er byggð lauslega á frægri bók Jane Austen Pride and Prejudice.

Hinn grjótharði Jason Statham leikur í myndinni The Mechanic sem opnar í 2.700 bíóum um helgina. Myndin er endurgerð á mynd með sama nafni frá árinu 1972 með gamla naglanum Charles Bronson í aðalhlutverki.

Þessi mynd er samkvæmt Hollywood Reporter, talin höfða sterkt til ungra karlmanna, sem kemur kannski ekki á óvart.

Fleiri gæðamyndir keppa um hylli áhorfenda um helgina. Til dæmis á að fjölga sölum sem hin margtilnefnda mynd The King´s Speech, er sýnd í, úr 1.680 í 2.553, en myndin fékk á dögunum 12 tilnefningar til Óskarsverðlauna. Myndin þénaði 60 milljónir Bandaríkjadala um síðustu helgi í Bandaríkjunum.

Einnig á að gefa 127 Hours smá búst, eftir að hún fékk Óskarstilnefningu, en myndin hefur valdið vonbriðgum í miðasölunnig og tekið inn aðeins 11,3 milljónir dala.

Sony Pictures Classics ætla einnig að dusta rykið af heimildarmyndinni Inside Job, sem var frumsýnd í október sl. , eftir að myndin var tilnefnd til Óskarsverðlauna í flokki heimildamynda.

Fleiri fyrirtæki hugsa sér nú gott til glóðarinnar eftir að Óskarstilnefningarnar komu í hús. Roadside Attractions biðu með að frumsýnda mynd Alejandro Gonzalez Inarritu’s „Biutiful,“ þangað til núna, enda fékk Javier Bardem Óskarstilnefningu sem besti leikari. True Grit, Black Swan og The Fighter munu einnig njóta góðs af sínum tilnefningum um helgina.