Rocketman leikstjórinn Dexter Fletcher hefur skrifað undir samning um að leikstýra næstu Sherlock Holmes kvikmynd, þar sem Robert Downey Jr. leikur titilhlutverkið.
Fletcher tekur þar með við keflinu af Guy Ritchie, sem leikstýrði síðustu tveimur myndum, Serlock Holmes frá árinu 2009 og framhaldinu; Sherlock Holmes: A Game of Shadows frá 2011. Báðar myndir gengu mjög vel. Tekjur fyrri myndarinnar námu 524 milljónum bandaríkjadala um heim allan, og sú seinni gerði enn betur, og náði inn tekjum upp á 545,4 milljónir dala.
Heimildir Variety herma að Warner Bros. hafi alltaf ætlað að gera þriðju myndina. En annríki Downey við að leika Iron Man, hafi komið í veg fyrir að hægt væri að gera hana. Þessi nýja mynd sem Fletcher leikstýrir, á að koma í bíó 21. desember árið 2021.
Fastlega er búist við að Jude Law snúi einnig aftur í hlutverk sitt sem Dr. Watson, félagi og aðstoðarmaður Holmes. Chris Brancato skrifar handrit.
Upphaflega hafði verið sagt að myndin kæmi í bíó um næstu jól, en ný dagsetning var ákveðin í mars síðastliðinum.
Fletcher, sem tók við leikstjórnartaumunum á Bohemian Rhapsody á síðustu stundu eftir að Bryan Singer var rekinn í miðjum tökum, leikstýrði síðast Elton John ævisögunni Rocketman. Hann leikstýrði einnig Rocketman stjörnunni Taron Egerton í Eddie the Eagle, sem einnig er sannsöguleg, eins og bæði Rocketman og Bohemian Rhapsody.
Fletcher fékk BAFTA tilnefningu fyrir fyrstu mynd sína frá 2011, Wild Bill.