Reznor og Fincher saman á ný

Trent Reznor, fyrrum meðlimur hljómsveitarinnar Nine Inch Nails, og Atticus Ross vöktu heldur betur athygli með tónlistinni sem þeir sömdu fyrir kvikmyndina The Social Network. Margir spá þeim Óskarstilnefningu fyrir verkið, en leikstjóri myndarinnar, David Fincher, var ekkert minna sáttur með piltana.

Næsta verkefni Fincher er endurgerð á The Girl With the Dragon Tattoo, sænsku myndinni og þeirri fyrstu í Millenium-þríleik Stieg Larsons, og hefur hann ákveðið að fá þá Reznor og Ross til liðs við sig á ný. Reznor lýsti þessu yfir á nýlegum fjölmiðlafundi, en The Girl with the Dragon Tattoo er væntanleg í lok desember á þessu ári. Endurgerðin mun skarta þeim Daniel Craig, Stellan Skarsgard og Rooney Mara í aðalhlutverkum.

– Bjarki Dagur