Vildi ekki hörmuleg endalok

Justin Simien leikstjóri Draugahússins, eða Haunted Mansion eins og myndin heitir á frummálinu, vildi gera Disney kvikmynd sem væri ófeimin við að ögra yngri áhorfendum, rétt eins og sígildar Disneymyndir æsku hans gerðu.

Myndin kom í bíó fyrir helgi á Íslandi.

Haunted Mansion (2023)

Ekki aðgengileg á veitum á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn6
Rotten tomatoes einkunn 37%

Einstæð móðir að nafni Gabbie ræður leiðsögumann, miðil, prest og sagnfræðing til að hjálpa sér að særa illa anda út úr húsi sem hún er nýbúin að kaupa sér....


Allt frá dauða móður Bamba í Bambi frá 1942 að því þegar Scar myrðir Mufasa í The Lion King frá árinu 1994, hefur Disney aldrei hikað við að taka á erfiðum málum, en í tilfelli Haunted Mansion var ein lína sem Simien gat ekki stigið yfir. Aðalleikari kvikmyndarinnar er LaKeith Stanfield, sem leikur Ben. Hann er fyrrum stjarneðlisfræðingur sem gerist leiðsögumaður yfirskilvitlegra atburða í New Orleans. Líf hans breyttist þegar eiginkonan Alyssa, sem Charity Jordan leikur, dó í bílslysi, og upphaflega átti Ben að fá slæm endalok í kvikmyndinni, þveröfugt við það sem varð að lokum í myndinni. „Þegar við réðum LaKeith þá breyttist eitthvað hjá mér persónulega varðandi endi myndarinnar,“ segir Simien við vefmiðilinn The Hollywood Reporter. „Satt að segja vildi ég ekki að svartur maður fengi slæma útreið í kvikmynd eins og þessari. Ég vildi sjá hann ganga í burtu í lokin með von í hjarta og það hefði því verið erfitt að kyngja hörmulegum endi fyrir svarta persónu, amk. fyrir mig núna.“

Gerðu aðrar útgáfur

Einnig voru aðrar útgáfur af myndinni mögulegar þar sem draugur Alyssu átti að leika stærra hlutverk. Sú útgáfa kom seint í ferlinu með innilegri ræðu sem fékk meira vægi í tengslum við þá hugmynd að Ben myndi mögulega lifa sínu lífi áfram með Gabbie sem Rosario Dawson leikur og syni hennar Travis, sem Chase Dillon leikur, en þau voru einnig að syrgja ástvin.

„Við tókum upp slíka mynd. Það er líklega fjögurra tíma útgáfa af kvikmyndinni sem enginn hefði viljað horfa á til enda, þar á meðal ég sjálfur,“ útskýrir Simien. „Þar eru sýndir ólíkir möguleikar um hvað gæti hafa gerst á milli þess sem Ben kemur inn í húsið og hópurinn fer úr húsinu og ákveður að koma aftur af sjálfsdáðum. En með því að prófa það og vinna áfram með samstarfsfólki frá Disney, þá var það ekki alveg sá endir sem varð niðurstaðan í lokin.“

Mikilvægt að prófa og prófa

Eins og segir í fréttinni eru prufusýningar mikilvægur liður í gerð kvikmynda hjá Disney þar sem kvikmyndaverið gerir hvað það getur til að höfða til allra áhorfenda. Og þó að ekki séu allir leikstjórar hrifnir af svona prufuferli þá kann Simien vel að meta það. „Þetta er snúið ferli, sérstaklega þegar þú ert að vinna með stórum framleiðanda, en ég satt að segja veit ekki hvernig maður gerir kvikmynd án prufusýninga. Ég vil ekki gera kvikmyndir bara fyrir mig. Ég vil gera kvikmyndir fyrir fólk og ég vil að myndirnar hreyfi við því á ákveðinn hátt. Ég myndi því, ef ég gæti, prófa myndir allt til enda. Ég myndi prófa handrit, og jafnvel einstök atriði strax eftir að þau eru tekin upp, ef það væri hægt.“