Hélt hann hefði farið yfir strikið

Breska blaðið Financial Times gefur rómantísku gamanmyndinni Bros, sem kom í bíó um helgina, fjórar stjörnur af fimm mögulegum í dómi um myndina og segir hana fyndna. Þar sé fjallað sé um pólitík, dægurmenningu og vísað sé í Bert og Ernie og Óskarsverðlaunamyndina The Power of the Dog m.a.

Glatt á hjalla.

Myndin, sem frumsýnd var á kvikmyndahátíðinni í Toronto í Kanada, er þegar þetta er skrifað 88% fresh á Rotten Tomatoes kvikmyndasíðunni.

Rotten Tomatoes gengur þannig fyrir sig að þegar amk. 60% umsagna um mynd eða sjónvarpsþátt eru jákvæð, þá er rauður tómatur birtur til að gefa til kynna Ferska stöðu. Þegar innan við 60% umsagna eru jákvæð, þá er græn klessa birt til að gefa til kynna Rotna stöðu.

Allir LGBTQ

Eins og fjallað hefur verið um hér á kvikmyndir.is þá eru allir leikarar myndarinnar úr LGBTQ samfélaginu, jafnvel í hlutverkum gagnkynhneigðra ( þ.e. fyrir utan gestaleik Debru Messing aðalleikkonu sjónvarpsþáttanna vinsælu Will & Grace, en hún leikur sjálfa sig í myndinni).

Billy Eichner, aðalsprautan í verkefninu, er bæði einn handritshöfunda ásamt því að leika aðalhlutverkið. Hann varð þar með fyrsti opinberlega samkynhneigði maðurinn til að gera þetta hvoru tveggja í stórri Hollywood mynd.

„Enn í dag, þá er ég að bíða eftir að einhver úr kvikmyndafyrirtækinu hringi í mig og segi, „Þú veist, núna þegar við höfum pælt í þessu, þá teljum við að þú hafir farið yfir strikið.“ En það gerðist ekki,“ segir Eichner í samtali við Variety kvikmyndaritið.

„Hluti af mér áttaði sig á að ýmislegt í myndinni yrði nýtt fyrir mörgum áhorfendum, og ég var hrifinn af því líka. Ég var alveg, Frábært, komum fólki á óvart. Látum það fá nett áfall. Sacha Baron Cohen hefur engar áhyggjur af því að gera það – afhverju ætti ég að vera hræddur við það sama?“

Reyndi að snúa Stoller

Eichner vann með tveimur gagnkynhneigðum mönnum við gerð myndarinnar. Meðhandritshöfundur, framleiðandi og leikstjóri er Nicholas Stoller (Ég hef verið að reyna að snúa honum,“ grínast Eichner með) maðurinn á bakvið Forgetting Sarah Marshall og Neighbors. Hinn er framleiðandinn Judd Apatow, sem hefur gert myndir eins og Superbad og Bridesmaids.

Stoller vann einnig lengi með Apatow og kom að máli við Eichner með hugmynd um að gera saman kvikmynd eftir að þeir höfðu unnið saman að Neighbors 2: Sorority Rising og Friends From College.

„Ég hef aldrei skrifað handrit að kvikmynd og ég þarfnaðist reynslunnar frá Nick. Og ég þurfti Judd til að hjálpa mér að selja kvikmyndina,“ útskýrir Eichner.

„Ég kynnti Nick fyrir heimi samkynhneigðra og Nick kenndi mér að skrifa og hvernig ætti að gera stóra kvikmynd.“