Afhverju er raðmorðinginn í The Black Phone svona ógnvekjandi?

Flestar hrollvekjur þar sem raðmorðingjar koma við sögu eyða vanalega nokkru púðri í að segja einhverja hörmulega sögu af fortíð morðingjans sem getur þá útskýrt afhverju venjuleg manneskja getur breyst í skrímsli. Oft er það þannig að raðmorðinginn hefur verið misnotaður í æsku, sem verður til þess að hann þróar með sér brengluð hugrenningatengsl á milli nautnar og sársauka annars fólks.

Grabber er grímuklæddur. Á bakvið grímuna leynist leikarinn Ethan Hawke.

Þessi nálgun hjálpar áhorfendum að tengja við mannlega eiginleika morðingjans og gefur stundum fórnarlömbunum ákveðna leið til að tengjast þrjótinum. En í hrollvekjunni The Black Phone, sem kom í bíó nú um helgina, fer leikstjórinn Scott Derrickson þveröfuga leið. Hann gefur ekkert uppi um raðmorðingjann Grabber, sem Ethan Hawke leikur. Með því fjarlægir hann mennskuna úr óþokkanum.

Ástæðan fyrir því að Grabber er jafn ógnvekjandi í The Black Phone og raun ber vitni er sem sagt sú að við vitum ekki hvað varð til þess að hann ákvað að fremja þau voðaverk sem hann fremur. Það eina sem við sjáum er hryllileg gríman og reiður maður sem ekki er hægt að koma neinu tauti við.

Kvikmyndavefurinn The Collider fjallar um þetta og segir að í langflestum sjónvarpsþáttum og kvikmyndum sé farin sú leið að kanna hvort einhverjar leifar af mennsku séu enn til staðar í sturlaða vitfirringnum. Nefna megi myndir eins og The Cell með Jennifer Lopez en þar reynir geðlæknirinn Catherine Deane að komast inn í huga þrjótsins og finna barnið sem enn lifir djúpt í hugskoti hans, þrátt fyrir alla þá raun sem morðinginn upplifði í æsku.

Halda með morðingjunum

Einnig má nefna sjónvarpsseríur eins og Dexter og You en þær hafa náð mikilli hylli fólks vegna þessarar könnunar á mjög svo gölluðum einstaklingum. Handritshöfundum tekst svo vel upp að áhorfendur halda hreinlega með morðingjunum.

Í kvikmyndinni Mr. Brooks er raðmorðinginn Brooks, sem leikinn er af Kevin Costner, venjulegur góðhjartaður fjölskyldufaðir en innra með honum búa dimmir skuggar sem fá hann til að drepa. Þar með finnst fólki þetta kannski ekki alfarið honum að kenna og það hjálpar okkur að tengjast aðstæðunum sem morðinginn er í.

Það er síminn til þín.

Svo við komum aftur að The Black Phone þá er Grabber ósköp venjulegur maður sem notar hefðbundnar aðferðir við að lokka börn ofaní kjallarann sinn í úthverfinu, þar sem engan grunar neitt. Og löggan finnur auðvitað ekki neitt, þrátt fyrir ítarlega leit.

Hús morðingjans er ósköp hversdagslegt og fyrir utan kjallarann er ekkert sem gefur til kynna að þarna geti búið jafnmikil illska og raun ber vitni.

Í raun er Grabber maður sem gæti gengið úti á götu án þess að nokkrum dytti í hug að hann hefði eitthvað misjafnt í huga.

Hversdagsleikinn eykur á óhugnaðinn

Hversdagsleikinn í kringum Grabber er einmitt það sem gerir drápin svo skelfileg því engan getur grunað að hann geymi börn í kjallaranum sínum og murrki þar úr þeim lífið. Og afþví að við vitum ekkert um morðingjann og fortíð hans og ástæður fyrir morðunum, þá eigum við erfitt með að skilja þetta allt saman. Afhverju setur hann upp grímu og pyntar fórnarlömb sín. Og hvað kemur í veg fyrir að við lendum í klónum á honum sjálf?

Ógnvekjandi maður.

Við getum reyndar komist að einhverjum smáatriðunum með því að fylgjast náið með þorparanum. Hann er frekar upptekinn af „óþekkum“ strákum og hann vill refsa fólki fyrir að gera slæma hluti. Og samræður hans við Finney, sem Mason Thames leikur, gefa til kynna að hann hafi sjálfur alist upp við ofbeldi. Einnig fáum við að vita að bróðir Grabber, Max, er dópisti sem einnig gæti gefið til kynna slæma æsku þeirra bræðra. Þetta er þó auðvitað ekki mikið til að byggja á en hjálpar okkur kannski örlítið að átta okkur á því hvort svona maður gæti búið í hverfinu okkar.

No Country for Old Man svipuð

Aðrar myndir sem hafa haft raðmorðingja án fortíðar eru t.d. No Country for Old Man og Creep kvikmyndirnar. Eins og fyrr sagði er þessi skortur á upplýsingum um fortíðina það sem skelfir okkur enn meira en ella.

Þegar Finney er fastur í kjallaranum þá er ekkert sem gerist sem getur hjálpað honum að semja við morðingjann um frelsi sitt. Það er enginn erfið minning sem Finney getur notað til að beina athygli Grabber annað, á meðan hann stingur af. Það er bara hrein illska á ferð sem slátrar börnum á meðan nágrannarnir lifa sínu venjulega lífi í næsta húsi.

The Black Phone fær okkur til að ímynda okkur að í raun gæti maður eins og Grabber búið í nágrenni okkar, og það er frekar ógnvekjandi. Það hræðir mann líka verulega að svo virðist sem hann hafi enga sérstaka ástæðu til að fremja illvirkin.