Þrjár Transformers myndir í vinnslu

Þrjár ólíkar bíómyndir í Transformers-seríunni eru í bígerð um þessar mundir og hefur kvikmyndaverið Paramount gefið út að sú fyrsta verði frumsýnd í júní árið 2022. Ekki hefur þó verið gefið upp nákvæmlega hvaða eintak það verður af þeim sem eru nú öll á forvinnslustigi. Sem fyrr eru kvikmyndirnar gerðar í samstarfi við leikfangafyrirtækið Hasbro.

Síðustu tvær myndir seríunnar, The Last Knight og Bumblebee, stóðu ekki alveg undir væntingum framleiðenda (sérstaklega ekki þessi síðarnefnda, sem þó fékk langbestu dómana) en þó mun það ekki koma í veg fyrir þróun fleiri mynda til að halda járninu heitu.

Ein af þessum væntanlegu Transformers-myndum verður sjálfstæð saga frá handritshöfundinum James Vanderbilt (Zodiac, The Amazing Spider-Man) og byggð á fyrirbærinu Beast Wars. Aðdáendur Transformers-leikfanganna og heimsins þekkja til þessa merkis en þarna er fjallað um vélmenni sem umbreytast í vélræn dýr í stað farartækja.

Önnur Transformers-myndin í vinnslu kemur frá handritshöfundi King Arthur: Legend of the Sword, Joby Harold, og er sögð gerast í sama heimi og Bumblebee. Enginn leikstjóri hefur enn verið ráðinn fyrir sitt hvora myndina.

Þriðja verkefnið verður teiknimynd frá þeim Andrew Barrer og Gabriel Ferrari, sem saman pennuðu Ant-Man and the Wasp. Nýverið var Pixar-leikstjórinn Josh Cooley (sem fyrr á árinu hlaut Óskarsverðlaun fyrir Toy Story 4) fenginn til að eiga við handritið, en þarna er um að ræða forsögu sem gerist öll á plánetunni Cybertron. Fjallar hún í grunninn um tengsl andstæðinganna Optimus Prime og Megatron.

Ekkert hefur verið gefið upp um leikara eða leikstjóra fyrir þessar tilvonandi myndir.

Transformers-myndirnar eru sex talsins með hinni sjálfstæðu Bumblebee sem kom út árið 2018. Hinar fimm eru allar leikstýrðar af ofurframleiðandanum Michael Bay. Þó er Bay afar ólíklegur til að leikstýra Transformers-mynd aftur. Nokkurn tímann.