Opnar sig um ofbeldissamband við Paul Thomas Anderson – Hætti í neyslu eftir „hryllilegt kvöld“ hjá Tarantino

Söngkonan Fiona Apple hefur vakið gríðarlega athygli í netheimum með sláandi frásögn af fortíð sinni. Nýverið var hún í ítarlegu viðtali við fréttamiðilinn The New Yorker og rifjaði þar upp samband sitt við kvikmyndagerðarmanninn Paul Thomas Anderson, leikstjóra Boogie Nights, Magnolia og fleiri mynda.

Apple er um þessar mundir að kynna glænýju plötu sína, Fetch the Bolt Cutters, sem er jafnframt hennar fyrsta plata í átta ár. Í sama viðtali opnar hún sig um eiturlyfjaneyslu sína og hvatann að því að hún sagði skilið við slík efni, en þar kemur leikstjórinn Quentin Tarantino töluvert við sögu.

Á seinni hluta tíunda áratugarins voru þau Apple og Anderson eitt umtalaðasta parið í Los Angeles og unnu þau saman að ýmsum tónlistar- og kvikmyndaverkefnum. Segir Apple að margir aðdáendur þeirra beggja hafi haldið gífurlega upp á samband þeirra, en það hafi ekki verið dans á rósum. Langt fjarri því. „Þetta var uppfullt af sársauka og óreiðu,“ fullyrðir söngkonan en þau áttu í ástarsambandi í fimm ár.

Að hennar sögn beitti Anderson hana andlegu ofbeldi og segir hún minningarnar af sambandinu vera erfiðar og neikvæðar þegar á heildina er litið. Í lýsingu hennar á leikstjóranum á þessum tíma var hann „kaldur, gagnrýninn og endurtekið fullur fyrirlitningar“ í garð hennar.

Apple undirstrikar að hann hafi aldrei skaðað hana líkamlega en hún rifjar sérstaklega upp atvik eftir Óskarsverðlaunin árið 1998 þar sem hann kastaði stól í átt til hennar. Þetta gerði útslagið fyrir hana á þeim tíma.

„Þarna hugsaði ég: „Andskotinn. Þetta er ekki eðlilegt,“ segir hún og sagðist í kjölfarið hafa yfirgefið Anderson og flúið í hús föður síns. Þó endaði hún á því að snúa aftur til leikstjórans degi síðar. Hún sleit sambandinu við hann endanlega árið 2002.

Í viðtalinu opnar Apple sig einnig um fíkniefna- og áfengisneyslu sína. Í dag kveðst hún vera edrú en hún rifjar upp kvöld sem hún segist aldrei gleyma. Þetta var kvöldið sem leiddi til þess að hún ákvað að hætta allri fíkniefnaneyslu.

Á þessu örlagaríka kvöldi – sem hún kallar „hryllilegt kvöld á allan veg,“ var hún stödd ásamt Anderson heima hjá Quentin Tarantino. Hittingur þessi snerist í grunninn um þremenningana að horfa á kvikmyndir í bíósal Tarantinos, en á meðan þessu stóð neyttu þeir gífurlegs magns af kókaíni á meðan þeir voru stöðugt gortandi sig yfir eigin afrekum.

„Allir fíklar ættu að loka sig af í bíósal með Q.T. og P.T.A. á meðan þeir eru á kókaíni,“ segir Apple. „Viðkomandi mun aldrei langa til að snerta slík efni framar.“

Í New Yorker greininni kemur fram að Anderson hafi neitað að tjá sig um þetta mál.