Emoji valin versta mynd 2017

Teiknimyndin The Emoji Movie, eða Tjáknakvikmyndin, var valin versta bíómynd ársins á The Golden Rasberry Awards verðlaunahátíðinni, sem alla jafna er haldin sömu helgi og Óskarsverðlaunin eru haldin, og verðlaunar það sem verst þykir í kvikmyndaheimum á hverju ári.

Myndin, sem skartar hópi vel þekktra leikara, allt frá James Corden til Sir Patrick Stewart, fékk holskeflu af neikvæðum dómum þegar hún var frumsýnd síðasta sumar.

Aðrar tilnefndar myndir voru Baywatch, Fifty Shades Darker, The Mummy og Transformers: The Last Knight.

Af öðrum verðlaunum má nefna að Tyler Perry var valinn versta leikkona fyrir leik sinn í Boo 2!, og sigraði þar með  Katherine Heigl, Jennifer Lawrence, Dakota Johnson og Emma Watson.

Tom Cruise var valinn versti leikarinn fyrir frammistöðu sína í The Mummy, og bar þar sigurorð af Johnny Depp, Jamie Dornan, Zac Efron og Mark Wahlberg.

Versti meðleikari var valinn Mel Gibson fyrir Daddy’s Home 2, og hafði þar betur en Javier Bardem, Russell Crowe, Josh Duhamel og Anthony Hopkins.

Kim Basinger, sem lék í Fifty Shades Darker, var valin versta meðleikkona, en þar atti hún kappi við Sofia Boutella, Laura Haddock, Goldie Hawn og Susan Sarandon.