Sérstök þátttökusýning á ‘The Room’ í Bíó Paradís

Kvikmyndin The Room, sem er þekkt fyrir að vera ein versta mynd sem gerð hefur verið, verður sýnd í Bíó Paradís 26. og 27. janúar nk. kl. 20:00. Um er að ræða sérstaka þátttökusýningu þar sem boðið verður upp á skeiðar til að henda í tjaldið.

Myndin kom út árið 2003 og var sýnd við einstaklega dræmar viðtökur í Los Angeles þar sem flestir gestir vildu fá endurgreitt áður en hálftími var liðinn. Orðspor hennar dreifðist og er hún í dag orðin að einni bestu miðnæturskemmtun sem kvikmyndahúsin hafa upp á að bjóða. Þar draga áhorfendur hana sundur og saman í háði á sama tíma og þeir undra sig á því hvernig hægt er að gera svona góða vonda mynd.

Myndin sjálf fjallar um Johnny, leiknum af leikstjóra, handritshöfundi og framleiðanda myndarinnar, Tommy Wiseau, og Mark sem er leikinn af leikaranum Greg Sestero. Sá síðarnefndi hefur tvívegis komið til Íslands og verið viðstaddur sýningar á The Room í Bíó Paradís. Wiseau vann mikið með arfleifð James Dean og Tennesee Williams við gerð myndarinnar, en allar kvikmyndalegar vísanir og úrvinnsla hefða fara, vægast sagt, fyrir ofan garð og neðan í höndum herra Wiseau.

The Disaster Artist er tilnefnd fyrir besta aðlagaða handrit til Óskarsverðlaunanna 2018 en handritið er byggt á bók eftir Sestero um gerð The Room. Þar að auki vann aðalleikari myndarinnar, James Franco, Golden Globe-verðlaun fyrir hlutverk sitt í myndinni.