Ný Hellraiser á leiðinni – Nálahaus ekki með

Aðdáendur Hellraiser hryllingsmyndanna ættu að sperra eyrun – tökur eru hafnar á fyrstu Hellraiser myndinni í fimm ár. Games Radar segir frá þessu og hefur heimildirnar eftir A Nightmare on Elm Street leikkonunni Heather Langenkamp í Scare Tissue.

hellraiser

„Ég er svo spennt. Ég fer í tökur í næstu viku. Handritið er frábært og það að ég hafi fengið hlutverkið finnst mér æðislegt.“

Sögusagnir um endurræsingu Hellraiser flokksins hafa verið lífseigar sl. 10 ár, og höfundurinn, Clive Barker, hefur tjáð sig nokkrum sinnum um handritið og fleira.

Hér er þó ekki sú endurræsing á leiðinni heldur framhald á Hellraiser: Revelations frá 2011.

Samkvæmt Langenkamp sér fyrrum förðunarfræðingur Hellraiser og handritshöfundur Revelations, Gary Tunnicliffe, um bæði leikstjórn og handrit þessarar nýju myndar.

Leikarinn Doug Bradley lék Nálahaus ( Pinhead ) í öllum Hellraiser myndunum nema Revelations, en mun hann snúa aftur núna? Svarið er nei, hann er ekkert viðriðin þessa mynd.  „Í stuttu máli: verið er að gera nýja mynd og ég kem þar hvergi nærri,“ segir hann. „Ég gat ekki einu sinni tekið ákvörðun sjálfur þar sem ég fékk ekki einu sinni að lesa handritið, ólíkt Revelations þar sem ég tók meðvitaða ákvörðun um að vera ekki með, vegna forsendnanna á bakvið hana og lélegs handrits.“