Nýtt í bíó – The Fifth Wave!

Kvikmyndin The Fifth Wave, sem byggð er á samnefndri metsölubók, verður frumsýnd á föstudaginn næsta þann 15. janúar, í Smárabíói, Háskólabíói og Borgarbíói Akureyri.

Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan:

Í tilkynningu  frá Senu segir að myndin sé æsispennandi og byggð á samnefndri vísindaskáldsögu eftir Rick Yancey með ungstirninu Chloë Grace Moretz í aðalhlutverki.

fifth

Fjórar árásir skella á jörðinni með sívaxandi eyðingarmætti og hafa útrýmt lífi á plánetunni að mestu. Cassie (Chloë Grace Moretz) er á flótta og reynir í örvæntingu sinni að bjarga litla bróður sínum á meðan ótti og vantraust tæta í sundur leifar samfélagsins á jörðinni. Á meðan hún býr sig undir hið óumflýjanlega, hina banvænu fimmtu innrás, gengur Cassie til liðs við ungan mann sem gæti allt eins verið síðasta hálmstrá vonarinnar – ef hún gæti aðeins treyst honum.

fifth waveÍ öðrum hlutverkum eru meðal annars Maggie Siff, Maria Bello og Liev Schreiber.

Áhugaverðir punktar til gamans: 

– The 5th Wave er byggð á samnefndri bók eftir Rick Yancey sem kom út árið 2013 og er fyrsta bókin í þríleik. Rick hafði áður skrifað þrjár bókaseríur
sem náðu talsverðum vinsældum og þegar The 5th Wave kom út fór hún beint í efsta sæti bandaríska bóksölulistans og hefur nú verið þýdd á meira en þrjátíu tungumál. Önnur bókin, The Infinite Sea, kom svo út 2014 og náði einnig metsölu og nú er þriðja og síðasta bókin væntanleg, en hún nefnist The Last Star. Staðfesting á því að gerðar verði myndir eftir seinni tveimur bókunum liggur ekki fyrir og væntanlega spilar þar inn í að framleiðendur vilji bíða og sjá hvernig þessari fyrstu mynd vegnar.

– Allar bækurnar eftir Rick Yancey þykja ákaflega skemmtilegar og Chloë Grace Moretz hefur sagt að The 5th Wave sé ein af sínum uppáhaldsbókum og að hún hefði lesið hana þrisvar áður en hún frétti af gerð myndarinnar. Um leið og hún frétti það sótti hún um að fá að leika Cassie, sína uppáhaldssögupersónu að eigin sögn, og var strax ráðin í hlutverkið.

– The 5th Wave er önnur mynd breska leikstjórans J Blakeson í fullri lengd en þá fyrri, glæpatryllinn The Disappearance of Alice Creed, sendi hann frá sér árið 2009. Hún hlaut toppdóma margra virtustu gagnrýnenda og var tilnefnd til óháðu bresku kvikmyndaverðlaunanna (Raindance Award) það sama ár auk þess sem samtök gagnrýnenda í Lundúnum tilnefndu Blakeson sem „Breakthrough British Filmmaker“ ársins. Það verður gaman að sjá hvernig honum hefur tekist til við gerð The 5th Wave.