Eltir kærustuna til Ísafjarðar – Frumsýning!

Sena frumsýnir á morgun íslensku gamanmyndina Albatross eftir Snævar Sölvason í  Smárabíói, Háskólabíói, Borgarbíói Akureyri, Sambíóinu Keflavík, Króksbíói, Ísafjarðarbíói, Selfossbíói og Bíóhöllinni Akranesi.

albatross

Í myndinni segir frá Tómasi, ástföngnum og ævintýragjörnum borgarstrák sem elt hefur Rakel kærustuna sína til Ísafjarðar þar sem hann hyggst hefja nýjan kafla í lífi sínu. Þar fær Tómas vinnu á Golfvelli Bolungarvíkur, en á hann byrja að renna tvær grímur þegar hann kynnist skrautlegum samstarfsmönnum sínum, þeim Kidda og Finna, og yfirmanninum Kjartani sem er ekkert lamb að leika sér við í verstu frekjuköstunum. Stefnt er að því að fá
stórmót á völlinn um sumarið og því vill Kjartan tjalda öllu til. Tómasi líst ekkert á blikuna til að byrja með en hvað gerir maður ekki fyrir ástina? En skjótt skipast stundum veður í lofti og það á Tómas eftir að upplifa þegar óvænt áfall dynur yfir sem breytir öllum hans framtíðaráætlunum ..

Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan:

Með helstu hlutverk í myndinni fara  Ævar Örn Jóhannsson, Pálmi Gestsson, Finnbogi Dagur Sigurðsson, Gunnar Kristinsson, Birna Hjaltalín Pálmadóttir, Guðmundur Kristjánsson, Ársæll Níelsson, Gabriela Vieira, Gunnar Sigurðsson og Ólafur Halldórsson.

Áhugaverðir punktar um myndina: 

– Albatross var öll tekin upp í og við Bolungarvík sumarið 2013. Til að fjármagna vinnsluna leituðu aðstandendur til almennings í gegnum fjármögnunarsíðuna Karolinafund
og tókst að safna þeirri upphæð sem að var stefnt og vantaði til að vinna myndina. Um leið er þetta fyrsta íslenska myndin sem er fjármögnuð að fullu á þennan hátt.

– Þetta er fyrsta kvikmyndahlutverk Birnu Hjaltalín Pálmadóttur (Rakel), en hún er dóttir Pálma Gestssonar og á því ekki langt að sækja hæfileikana.

– Stjórnandi kvikmyndatökunnar á Albatross var Logi Ingimarsson sem einnig sá um klippinguna og það var Halldór Gunnar Pálsson sem samdi tónlistina. Aðrir sem komu að gerð myndarinnar eru þau, Erla Hrund Halldórsdóttir, Skúli Helgi Sigurgíslason, Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir, Jóhann Gunnar Guðbjartsson, Paul Smelt og Ingimar Sveinsson, en framleiðendur eru þeir Guðgeir Arngrímsson, Snævar Sölvason, Ævar Örn
Jóhannsson, Ingvar Þórðarson og Júlíus Kemp.