Smekklausar slægjur á Blu

Á meðan stórir titlar eins og „True Lies“ (1994) og „The Abyss“ (1989) láta bíða eftir sér í háskerpu hugsa litlu fyrirtækin um þann smáa markaðshóp sem bíður spenntur eftir smekkleysu á borð við „Don‘t Go Into the Woods…Alone“ (1981), „Mother‘s Day (1980) og „Splatter University“ ( 1984).

Don't go into the woods 4    Mother's day      Splatter University

88 Films er nýlegt útgáfufyrirtæki, stofnað árið 2012 og staðsett í Bretlandi, sem hefur sankað að sér frekar áhugaverðum titlum sem þeir hafa skellt í blússandi háskerpu og útbúið ansi veglegan pakka með miklu úrvali af aukaefni fyrir áhugasama. Fyrst og fremst gefa þeir út hryllingsmyndir og vöktu fyrst almennilega athygli hjá Blu-ray áhugamönnum með flottri útgáfu af „The Last Horror Film“ (1982) með þeim Joe Spinell og Caroline Munro.

Last Horror Film                                       Graduation day

Í nóvember 2014 tilkynnti fyrirtækið væntanlega línu af „slægjum“ (e. Slasher films) sem hófst með viðhafnarútgáfu af „Graduation Day“ (1981) og fjölmargir titlar eru væntanlegir á þessu ári. Til að freista kaupenda enn frekar var nýkláruð heimildarmynd, „Scream Queens“ , látin flakka með á disknum en þar er rætt við fjöldann allan af leikkonum sem fyrst og fremst eru þekktar sem „öskur-drottningar“.

Nýútkomnir titlar eru „Slaughterhouse“ (1987), „Mother‘s Day“ (sem er víst í miklu uppáhaldi hjá Eli Roth) og „Don‘t Go Into the Woods…Alone“.  Sú síðastnefnda er einmitt fræg meðal hrollvekjuunnenda en hún þykir einhver sú versta móðgun sem fest hefur verið á filmu. Gerð á þeim tíma þegar slægjur í óbyggðum rökuðu inn seðlunum (sbr. „Friday the 13th“ og  „The Burning“), myndin er sögð ekki búa yfir neinu sem telst áhugavert fyrir unnendur góðra slægja og þykir viðvaningsleg til hins ýtrasta.

Don't go into the woods 2

Í stuttu máli; alger hroði! Það kemur þó ekki í veg fyrir að myndin fær viðhafnarútgáfu sem myndi sæma Óskarsverðlaunamynd og ef marka má nýútkomna gagnrýni frá DVDBeaver.com þá eru mynd- og hljóðgæði fyrsta flokks. Stundum er málið einfaldlega þannig að ef mynd fær eins mikla sleggjudóma og „Don‘t Go Into the Woods…Alone“ hefur fengið frá byrjun; þá einfaldlega verður maður að berja hana augum til að fullnægja forvitninni. DVD upplagið af myndinni seldist upp á sínum tíma. Það hlýtur að segja eitthvað.

Night train murders                 Bogeyman

Á komandi mánuðum eru væntanlegir titlar á borð við „Night Train Murders“ (1975), Giallo tryllinn „The Bloodstained  Shadow“ (1978) og hina mögnuðu „The Bogey Man“ (1980) í slægjulínunni. Vonandi festir 88 Films góðar rætur og heldur áfram að grafa upp háklassa smekkleysu og veita henni kóngameðferð.

Stikla úr „Don’t Go Into the Woods…Alone“