Egyptar banna Exodus – ósáttir við margt

Egyptaland hefur bannað Biblíusögulegu kvikmyndina Exodus: Gods and Kings vegna sögulegrar ónákvæmni, að því er fram kemur í frétt Sky um málið.

Menningarmálaráðherra landsins, Gaber Asfour, sagði að myndin gæfi þá röngu mynd af sögunni að Móses og Gyðingar hefðu byggt pýramídana í Egyptalandi.

exodus-poster01-small

„Þetta er algjörlega gegn sögulegum staðreyndum,“ sagði hann fréttastofunni AFP.

„Þetta er Gyðingamynd ( sem ) gefur Gyðinglegt sjónarhorn á söguna og inniheldur sögulega ónákvæmni og þessvegna höfum við ákveðið að banna hana.“

Leikstjóri myndarinnar er Sir Ridley Scott og aðalleikari Christian Bale, sem leikur Móses. Myndin fjallar um Exodus bók Biblíunnar og segir frá því hvernig Móses hjálpaði ísraelskum þrælum að flýja ofríki og ofsóknir í Egyptalandi með því að leiða þá í gegnum Rauða hafið.

Myndin, sem kostaði 140 milljónir Bandaríkjadala, hefur einnig verið gagnrýnd af kristnum hópum fyrir að fara frjálslega með texta Biblíunnar, auk þess sem margir hafa gagnrýnt myndina fyrir að nota aðallega hvíta leikara í aðalhlutverkin.

Yfir kvikmyndaeftirlitsmaður í Egyptlandi, Mohamed Afifi, segir að einnig séu þeir ósáttir við að myndin skýri gönguna í gegnum Rauða hafið sem veðurfyrirbrigði, fremur en hreint kraftaverk. Þá var hann ósáttur við að Móses notaði sverð, en ekki staf.

Myndin var bönnuð í Marokkó fyrr í vikunni.