Aulinn ég 3 kemur 2017

despicable-me-freaksUniversal Pictures hefur tilkynnt um frumsýningardaga þriggja nýrra teiknimynda. Gru, Lucy, stelpurnar og litlu gulu undirlægjurnar í Aulanum ég mæta til leiks í þriðju Aulamyndinni þann 30. júní, 2017. Myndin kemur í kjölfar hinnar gríðarvinsælu Aulinn ég 2 sem frumsýnd var á síðasta ári og hefur þénað 935,8 milljónir Bandaríkjadala í bíó um allan heim. Þessi tala á eftir að hækka þar sem sýningar í Kína eru nýhafnar.

Önnur myndin er ný teiknimyndaútgáfa af Trölla sem stal jólunum, sem íslenski leikarinn Stefán Karl hefur leikið á sviði síðustu misserin í Bandaríkjunum. Eins og flestir ættu að muna lék Jim Carrey hlutverk Trölla í mynd sem gerð var árið 2000 í leikstjórn Ron Howard.

Myndin heitir fullu nafni á frummálinu: Dr. Seuss’ How The Grinch Stole Christmas og verður frumsýnd 17. nóvember 2017.

Nýju Trölla myndinni verður leikstýrt af Pete Candeland sem er þekktur fyrir myndirnar All Dogs Go To Heaven 2 og Harmonix: The Beatles — Rock Band.

Þriðja myndin frá Universal er mynd sem enn hefur ekki fengið nafn og verður frumsýnd 21. desember 2016.

Ásamt fyrrnefndum myndum er von á myndum frá Disney/Pixar annarsvegar og Fox/DWA/Blue Sky hinsvegar þann 16. júní 2017, og því er ljóst að það er dágóð skemmtun í vændum fyrir aðdáendur teiknimynda.