Tökumaður Star Wars látinn

gilbert taylorKvikmyndatökumaðurinn Gilbert Taylor, sem tók upp fyrstu Star Wars myndina og myndina Dr. Strangelove eftir Stanley Kubrick og The Omen eftir Richard Donner, er látinn, 99 ára að aldri.

Myndirnar sem Taylor tók upp eru einstaklega fjölbreyttar, en auk ofangreindra mynda má nefna myndir eins og Bítlamyndina A Hard  Day´s Night, Frenzy eftir Alfred Hitchcock, ásamt því sem hann vann nokkrum sinnum með Roman Polanski.

Breska ríkisútvarpið hafði eftir ekkju Taylor að maður sinn hefði „hafnað Bond mynd“ til að vinna með Polanski „af því að honum fannst Roman mjög áhugaverður náungi“.

Taylor er best þekktur fyrir vinnu sína með George Lucas að Star Wars  árið 1977, en í ASC tímaritinu árið 2006 sagði Taylor þetta m.a. um Star Wars: „George forðaðist alla fundi eða að vera í sambandi við mig frá fyrsta degi, þannig að ég las hið mjög langa handrit oft og mörgum sinnum og tók mínar eigin ákvarðanir um hvernig ég myndi taka myndina,“ sagði Taylor.

Hér má lesa nánar um það sem Taylor sagði í viðtalinu um tökurnar á Star Wars.