Tom Clancy er látinn

tom clancyBandaríski metsölurithöfundurinn Tom Clancy er látinn, 66 ára að aldri.

Samkvæmt frétt á The New York Times þá lést rithöfundurinn á spítala í Baltimore í Bandaríkjunum í gær, þriðjudag.

Gerðar voru þekktar spennumyndir eftir bókum hans, og nægir þar að nefna The Hunt for Red October, Patriot Games, Clear and Present Danger og The Sum of All Fears.

Clancy var meðstofnandi tölvuleikjaframleiðandans Red Storm Entertainment, sem er nú í eigu Ubisoft. Nafn hans er tengt fjölda metsölutölvuleikja.

Á síðari árum skrifaði Clancy bækur sínar með hjálp meðhöfunda, en hann sló upphaflega verulega í gegn þegar það fréttist að Ronald Reagan Bandaríkjaforseti væri aðdáandi bóka hans.

Væntanleg er ný mynd byggð á Jack Ryan, aðalsöguhetjunni úr ofangreindum bíómyndum, Jack Ryan: Shadow One.  Aðalhlutverk í myndinni leika Chris Pine og Kevin Costner, en myndin verður frumsýnd 25. desember nk.