Favreau vill gera litla mynd

Stórmyndaleikstjórinn Jon Favreau, sem meðal annars leikstýrði fyrstu Iron Man myndinni, er samkvæmt Variety kvikmyndaritinu í viðræðum um að skrifa handrit að – , leikstýra og leika í myndinni Chef, sem yrði sjálfstæð framleiðsla með takmarkað fjármagn.

Myndin mun eiga að gerast í Los Angeles og fjalla um tilfinningaríkan matreiðslumann sem yrði leikinn af Favreau.

Viðræður standa nú yfir á milli Favreau og fjárfesta og leikara, og ef allt fer samkvæmt áætlun þá mun myndin verða sett af stað.

Stjarnan úr Modern Family þáttunum, Sofia Vergara, myndi leika í myndinni fyrrum eiginkonu kokksins og leikarinn Bobby Cannavale úr sjónvarpsþáttunum Boardwalk Empire, er í viðræðum um að leika annan kokk.  John Leguizamo er einnig sagður vera að skoða það hlutverk.

Favreau hefur að undanförnu leikið nokkur aukahlutverk í myndum og leikur til dæmis í nýju Iron Man myndinni, Iron Man 3. Hann mun einnig sjást í myndinni The Wolf of Wall Street eftir Martin Scorsese síðar á þessu ári.

Chef yrði ódýrasta mynd Favreau síðan hann gerði Made árið 2001, en hann bæði leikstýrði-  og lék í myndinni.

Síðasta mynd sem Favreau leikstýrði var Cowboys and Aliens sem var frumsýnd árið 2011.