Alan Partridge stikla – Alpha Papa!

 

Eins og öllum aðdáendum Steve Coogans er væntanlega löngu kunnugt er hinn mislukkaði fjölmiðlamaður, Alan Partridge, sem jafnframt er ástsælasta og vinsælasta persóna sem Coogan hefur leikið, loksins á leið á hvíta tjaldið, eftir að hafa staldrað við í útvarpi og sjónvarpi í kostulegum grínseríum á borð við Knowing Me, Knowing You with Alan Partridge (1992/1994)  og I’m Alan Partridge (1997/2002).

Persónan hóf göngu sína í útvarpsþáttunum On The Hour árið 1991, þar sem Coogan vann ásamt Chris Morris, Armando Iannucci og fleirum, og hefur lifað góðu lífi æ síðan í gegnum regluleg verkefni af ólíkum toga. Fyrir tveimur árum kom m.a. út sjálfsævisaga persónunnar sem bar titilinn I, Partridge: We Need To Talk About Alan og er skrifuð út frá Partridge sjálfum, sem er einn titlaður höfundur verksins. Verkefni Partridges eru yfirleitt framsett eins og um raunverulegan fréttamann sé að ræða og þannig hefur persónan allan sinn feril dansað á mörkum þess að vera uppspuni og raunverulegur maður. Saman myndar efnið sem hann sendir frá sér skrítið grátt svæði þar sem tilbúningur og veruleiki blandast á furðulegan hátt.

Nýútkomin stikla fyrir frumraun hans á stóra tjaldinu er hér engin undantekning, en þar ræðir Partridge sjálfur mögulega titla að myndinni sem hann er að leika í og tilkynnir í leiðinni titil verksins formlega: Alan Partridge is in Alpha Papa (eða einfaldlega Alpha Papa). Á þeim rúmlega tveimur áratugum sem liðnir eru síðan Partridge leit fyrst dagsins ljós hefur karakterinn nánast skapað sér sitt eigið líf og að vissu leyti losnað undan hæl skapara sinna sem sjálfstæður persónuleiki í hugum aðdáenda. Fjölmiðlaferill Partridge er eins og áratugalangur Andy Kaufman-gjörningur þar sem öll mörk eftirmynda og frummynda, gríns og alvarleika, verða ekki aðeins óljós, heldur skipta ekki lengur neinu máli. Alan Partridge er ekki bara grínpersóna leikin af Steve Coogan, hann er fyrst og fremst Alan Partridge. Ég er ekki einu sinni viss um að Steve Coogan sé lengur Steve Coogan, heldur hef hann grunaðan um að hafa umbreyst í Alan Partridge fyrir löngu síðan.

Alpha Papa verður frumsýnd á Englandi 7. ágúst næstkomandi.