Emma og Daniel líklega Öskubuska og kroppinbakur

Harry Potter leikararnir Emma Watson og Daniel Radcliffe eru líkleg til að taka að sér hlutverk í myndum sem gera á eftir tveimur af þekktustu sögum síðari tíma.

Disney kvikmyndafyrirtækið vill fá Watson í  hlutverk Öskubusku í nýrri mynd sem Kenneth Branagh mun leikstýra eftir þessu þekkta ævintýri, og Radcliffe myndi setja upp kryppu og verða sjálfur kroppinbakurinn Igor aðstoðarmaður Dr. Frankenstein.

Þessi nýja Öskubuskumynd á að verða í svipuðum stíl og myndirnar Lísa í Undralandi eftir Tim Burton og nýja myndin um galdrakarlinn í Oz, Oz the Great and the Powerful, þar sem James Franco leikur aðalhlutverkið.

Cate Blanchett hefur þegar verið ráðin í hlutverk illu stjúpunnar.  Tökur myndarinnar munu hefjast síðar á þessu ári, hvort sem Emma verður með eða ekki.

Myndinni um Frankenstein verður leikstýrt af Paul McGuigan, en hermt er að taka eigi söguna nýjum og ferskum tökum. Igor, sem Radcliffe myndi leika, verður aðalpersónan þó svo að hann komi ekki fyrir í upprunalegri skáldsögu Mary Shelley um Dr. Frankenstein og skrýmslið ógurlega sem hann bjó til.

Samkvæmt upplýsingum vefmiðilsins The Wrap þá ætlar leikstjórinn að setja Frankenstein í meiri vísindaskáldsögubúning.

Radcliffe sást nýlega á hvíta tjaldinu í The Woman in Black og mun næst sjást í hlutverki Beat skáldsins Allen Ginsberg í myndinni Kill Your Darlings.

Watsons hefur einnig nóg á sinni könnu. Hún leikur í sjónvarpsmyndinni Ballet Shoes ásamt því sem hún lék lítið hlutverk í My Week With Marilyn. Hún leikur einnig í myndinni The Perks of Being a Wallflower og fer svo með stór hlutverk í mynd Sofia Coppola The Bling Ring. Þá leikur hún sjálfa sig á móti James Franco í gamanmyndinni This Is the End eftir Evan Goldberg. Þá er hún í viðræðum um að leika í mynd Guillermo del Toro, Beauty and the Beast.