J.J. Abrams og Children of Men leikstjóri gera Believe

Sumir menn hafa meira þrek en aðrir, einn þeirra er J.J. Abrams.
Það er ekki nóg með að leikstjórinn sé að klára Star Trek: Into Darkness og byrja að vinna að næstu Star Wars mynd, Star Wars 7, sem hann mun leikstýra einnig, heldur gefur hann sér einnig tíma til að vinna að sjónvarpsefni.

Abrams er eins og margir vita einn af höfundum Lost sjónvarpsþáttanna auk þess sem hann er maðurinn á bakvið sjónvarpsseríurnar Felicity og Alias.

Abrams hefur nú verið beðinn um að gera tvo prufuþætti fyrir sjónvarpsseríur, svokallaða Pilot þætti, og er þegar kominn á fullt í vinnu við þann fyrsta.

Sá heitir Believe og er samvinnuverkefni Abrams og Alfonso Cuaron, leikstjóra Children of Men.

Nokkrir leikarar hafa þegar verið ráðnir í þáttinn, þar á meðal Delroy Lindo og Jake McLaughlin, auk þess sem The Hollywood Reporter segir frá því að Jamie Chung, Sienna Guillory og Johnny Sequoyah hafi bæst í hópinn.

Þættirnir eru dramaþættir og Cuaron mun leikstýra. Sagan hljómar ekki ósvipað myndinni I Am Number Four, en þættirnir eiga að fjalla um unga stúlku með mikla yfirnáttúrulega krafta og leiðbeinanda hennar og verndara sem á að vernda hana gegn illum öflum.

Sequoyah á að leika Bo, stúlkuna með ofurkraftana, en McLaughlin mun leika verndarann Tate. Áður en Tate getur tekið að sér verndarahlutverkið þarf að hjálpa honum að sleppa úr fangelsi. Jamie Chung leikur Channing, sem er klár kona sem vinnur fyrir persónu Lindo, sem heitir Winter. Að lokum þá er það Guillory, sem hefur m.a. leikið í þremur Resident Evil myndum, sem leikur svalan leigumorðingja að nafni Moore.

Nú er bara að bíða og sjá hvort að þessi þáttur muni duga til að sería verði gerð í framhaldinu.

 

Stikk: