Transylvania á toppnum í USA – Looper í öðru sæti

Teiknimyndin Hótel Transylvania var mest sótta myndin í Bandaríkjunum yfir helgina og þénaði 43 milljónir Bandaríkjadala, sem var mun betri árangur en búast hafði verið við. Tímaferðalagstryllirinn Looper, sem kvikmyndir.is forsýndi fyrir viku síðan í SAMbíóunum Egilshöll, lenti í öðru sæti þessa frumsýningarhelgi úti í Bandaríkjunum með tekjur upp á áætlaða 21,1 milljón Bandaríkjadali. Pitch Perfect kom á óvart um helgina, og lenti í sjötta sæti þrátt fyrir takmarkaða dreifingu.

Tekjur Hótel Transylvaníu þessa frumsýningarhelgi þýða að myndin slær met yfir bestu frumsýningu í september, en fyrra metið átti Sweet Home Alabama eða 35,6 milljónir í tekjur á frumsýningarhelgi. Myndin slær sömuleiðis innanhússmet hjá Sony Pictures Animation, en fyrra metið hjá þeim átti The Smurfs með 35,6 milljónir og þar á undan Cloudy with a Chance of Meatballs.

Þá má nefna enn eitt metið ( eða hálfmetið ), en það er að myndin er næst besta frumsýning Adam Sandler myndar frá upphafi, en best lukkaða frumsýningarhelgi Adam Sandler til þessa er frumsýning The Longest Yard árið 2005, en sú mynd þénaði 47,6 milljónir Bandaríkjadala á frumsýningarhelginni.

Aðrar myndir á topp tíu aðsóknarlista helgarinnar í Bandaríkjunum eru í réttri röð:

End of Watch, Trouble with the Curve, House at the End of The Street, Pitch Perfect, Finding Nemo 3D, Resident Evil: Retribution, The Master og Won´t Back Down.