Uppáhaldsmyndir Róberts árið 2011

Nýja árið er komið á skrið og til að fylgja í fótspor Þorsteins hef ég hér mínar uppáhaldsmyndir frá árinu 2011. Persónulega gat ég þó ekki fyllt Topp 10 lista, þannig ég læt 8 myndir duga. Sem betur fer sá ég mest allt sem hafði náð forvitni minni frá árinu fyrir árslok, en nokkrar náðu þó að sleppa og hver veit hvort að þær hefðu endað á listanum. Meðal þeirra voru Warrior, Tinker Tailor Soldier Spy, Hugo og Shame.
Ég ætla nú ekki að tefja lengur og kynni hér með listann minn:


8. Hanna
Hin 16 ára Hanna hefur búið ein með pabba sínum á köldum túndrum Finnlands síðan að hún var aðeins tveggja ára. Á þeim árum hefur hann þjálfað hana til að gerast þaulkunn drápsmaskína þegar tíminn er réttur og líður ekki langt þangað til að hún snýr aftur til siðmenningar nútímans. Út frá því þarf Hanna að flýja undan yfirvöldunum og verra í gegnum lönd og heimsálfur til að komast að uppruna sínum og vonandi uppfylla áform föður hennar.

Ég sá Hönnu á tímabili sem einkenndist nánast eingöngu af heilalausum poppkorns myndum og kom hún því sem velkomið ferskt loft. Þó að margt í myndinni hefur sést áður, tæklar hún það á frábæran hátt. Atburðir og orsakir virtust skipta meira máli þar sem nánast öll atburðarás myndarinnar ógnaði framtíð stúlkunnar og það var ekki erfitt að finna til með henni á erfiðum tímum. Eins og í meistarastykkinu Léon, þá var það þessi vonarglampi um stöðugleika í óreiðunni sem virkaði sem leiðarljós aðal-karaktersins og á sama tíma miðpunktur samúðar hjá áhorfandanum.
Í heildina er Hanna æðisleg blanda af frábærum hasaratriðum og tilfinningalega sterkri ferð ungrar stúlku frá fávissu yfir í hugljómun. Plús þá er myndin með eitt besta ‘soundtrack’ síðustu ára.


7. A Separation
Hjónin Nader og Simin standa á krossgötum: Simin vill flytja frá Íran til BNA og stofna betra líf þar fyrir dóttur þeirra, á meðan Nader harðneitar og vill verða eftir til að sjá um Alzheimers-sjúkan föður sinn. Út frá því aðskiljast þau og upphefst þá röð óheppilegra atvika sem mun gjörbreyta lífum hjónanna.

Roger Ebert vildi lýsa myndinni sem „mennskri upplifun“ og ég gæti ekki verið meira sammála honum. Hver hefur ekki lent í rifrildi þar sem báðar hliðarnar hafa sína útgáfu af sannleikanum og að í raun hefur enginn rétt eða rangt fyrir sér; það kemur allt niður á skoðunum. A Separation baðar sig í þeirri lógík og áhorfandinn verður hreinlega að velja sér hlið og standa með henni út myndina, því rökin frá báðum aðilum verða ekkert aðgreinilegri eða ójöfn. Hún bætir síðan ofan á erfiðu deilu hjónanna ráðgátu sem byggist algjörlega á óáræðanlegu minni, eða var það áræðanlegt?
Úr þessu sauð virkilega grípandi mannlegt drama sem neyddi áhorfandann jafnvel til að efast um sína eigin dómgreind.


6. 50/50
Adam er hraustur og upprennandi ungur maður með bjarta framtíð frammi fyrir sér, þangað til að hann er greindur með krabbamein. Í kjölfarið fylgjumst við með erfiðu baráttu hans við sjúkdóminn og áhrifin sem hún hefur á ættingja og ástvini Adams.

50/50 reyndist vera mun átakanlegri en ég bjóst við og tæklaði hún viðfangsefnið alls ekki sparlega. Það kemur líklegast út frá því að handritshöfundur myndarinnar byggir söguna á sinni eigin baráttu við krabbamein og leikur Seth Rogen í raun sjálfan sig í myndinni, þar sem hann gengdi sama hlutverki í lífi handritshöfundarins Will Reiser. Sem betur fer gleymir myndin sér ekki í gríninu og nær að jafna sig út með örlitlum svörtum húmor og hágæða drama. Joseph Gordon-Levitt er æðislega sjarmerandi í hlutverkinu og fær hann mann algjörlega til að hlæja, gráta og finna til með Adami.
Þetta er mynd sem er ekki erfitt að gleyma sér í og karakterarnir eru svo elskulegir að af hálfu væri nóg.


5. The Girl with the Dragon Tattoo
Blaðamaðurinn Mikael Blomkvist, ásamt tölvusnillinginum Lisbeth Salander, leita að ungri konu sem hvarf fyrir 40 árum.

Ég get ekki gert lista yfir uppáhalds myndirnar frá árinu á undan án þess að hafa mynd eftir David Fincher á honum. Maður með svo flekklausan feril (við teljum ekki með Alien 3) að ótrúlegt sé. Fincher hefur dansað á hálum ís seinustu ár með því að bæði tækla mynd um stofnum Facebook og að endurgera heittelskaða sænska glæpamálaseríu; en hann sýndi þó öllum í tvo heimana með því að skila frá sér hinni fáranlega góðu Social Network og endurgerð sem (að mínu mati) nær að jafna, og jafnvel skara fram úr, upprunalegu sænsku kvikmyndinni. Ég er samt ekki hér til að bera myndirnar saman, heldur til að reyna að gefa einhverja ímynd af hverju endurgerðin endaði á listanum. Einfaldlega, þetta er kvikmyndagerð í topp formi. Stíll Finchers passar eins og flís við rass við sögu Stúlkunnar með dreka tattúið og er eins og alltaf algjört augnakonfekt fyrir kvikmyndaunnendur. Það virðist einkennilegt að staðsetja myndina aftur í Svíþjóð, en hreimar leikaranna venjast fljótt og Daniel Craig og Rooney Mara eru rafmögnuð í hlutverkum sínum. Síðan má ekki gleyma hinu frábæra ‘soundtrack’i eftir þá Trent Reznor og Atticus Ross, enda mennirnir bakvið hljóðrás Social Network.
Það getur kannski verið svolítið erfitt að réttlæta of mikið lof í garð endurgerðarinnar, en þetta kemur allt niður á því að ég hreinlega fékk meira út úr 2011-útgáfunni og gekk hreyfður út úr kvikmyndasalnum.


4. Gantz tvíleikurinn
Skóladrengirnir Kei og Kato, í tilraun til að bjarga ölvuðum einstaklingi, verða fyrir neðanjarðarlest, en þótt mörg vitni hafi verið finnast aldrei lík drengjanna. Þeir vakna í ókunnugri þakíbúð þar sem einu íbúarnir eru nokkrar dauðskelkaðar manneskjur og stór svört kúla. Kúlan lýsir því yfir að nú séu þau undir hennar stjórn og að ekkert verði aftur eðlilegt fyrir þau. Brátt fá þau verkefni frá kúlunni og í ljós kemur að heimurinn eins og við þekkjum hann er ekki eins og hann sýnist.

Þó að þú hefur líklegast ekki heyrt um Gantz tvíleikinn ætti það ekki að koma sem einhverskonar hindrun, þetta er ákveðið skylduáhorf; sérstaklega fyrir sci-fi aðdáendur. Til viðmiðunar gæti ég lýst myndunum sem japanskri samblöndu af Scott Pilgrim og Matrix trílogíunni, með tilheyrandi áhrifum frá japanskri menningu. Gantz myndirnar taka þó óvænt skref og slógu mig algjörlega út af laginu með því að þurrka út spurninguna um gott á móti illu og í staðinn héldu sér í gráa svæði siðfræðinnar. Þó að það eru nokkur asnaleg augnablik sem virkuðu hreinlega betur á blaði, þá er það í raun sagan sem heldur verkinu uppi og þessi óvænta fágun fyrirgefur nánast öll einkennilegu og asnalegu atriðin. Í endann setti ég síðan myndirnar á listann því ég gjörsamlega týndi mér í goðafræðinni sem gerir þær.
Til að summa upp upplifunina, þá get ég einfaldlega sagt: Þetta var eins og að horfa á The Matrix í fyrsta skiptið.


3. Midnight in Paris
Handritshöfundurinn Gil er í fríi í París með unnustu sinni og tengdaforeldrum. Á meðan ferðinni stendur hættir hann ekki að dagdreyma um regnvota Parísborg árið 1920. Eitt kvöldið, eftir indæla máltíð með unnustunni og vinum, ákveður Gil að rölta um strætin og rétt fyrir miðnætti stöðvar hann við þrep og hvílir sig þar. Klukkan slær tólf og brátt fara töfrar Parísar að taka við.

Þrátt fyrir að Woody Allen er auðveldlega með betri handritshöfundum/leikstjórum okkar tíma, þá á ferill hans það til að fara í ákveðna rússíbanaferð við og við. Maðurinn hefur pumpað út kvikmynd á hverju einasta ári síðustu 30 ár þannig auðvitað koma nokkrar holur á veginum, en þegar hann gefur frá sér góða kvikmynd, þá getiði trúað því að það mun alltaf án efa vera með betri myndum ársins. Við erum svo heppin að árið 2011 gaf hann einmitt frá sér góða mynd og ég held hreinlega að þessi og Vicky Cristina Barcelona séu bestu verk hans frá 21. öldinni. Midnight in Paris nær fullkomlega að setja áhorfandann í sama hugarástand og Gil og (án þess að eyðileggja fyrir sögunni) þá byrjar maður að falla fyrir miðnætur-ævintýrunum á meðan dags-atriðin eru ekkert nema pása á milli (ég meina þetta á góðan hátt auðvitað). Owen Wilson getur verið pirrandi í myndum sínum, en hér neglir hann típíska „Woody Allen-karakterinn“ algjörlega og skilar inn frábærri og skemmtilegri frammistöðu.
Margir munu eflaust ekki falla fyrir töfrum myndarinnar, en ég get ánægður sagt að ég sé gjörsamlega heillaður.


2. Drive
Nafnlausi bílstjórinn Driver finnur nýfundna ást í garð nágranna síns, einstæðu móðurinnar Irene, og með því nýjan tilgang í lífinu. Hins vegar er eiginmanni hennar sleppt úr fangelsi og sogast Driver þá inn í sorglega atburðarás grafísk ofbeldis og svika.

Við fyrstu sýn virðist Drive einfaldlega vera fáguð útgáfa af The Transporter, en þegar líður á myndina gjörbreytist það og fer últra-ofbeldið að ná yfirhöndinni. Það getur hreinlega komið manni í opna skjöldu hversu snögglega ‘brútal’ myndin verður á köflum, en hvernig leikstjórinn Nicolas Winding Refn tæklar það er bæði hægt að sjá það sem kolsvartan húmor eða sýn á dýrslegu hlið mannsins. Eðli er þarafleiðandi stórt þema í myndinni og fjallar hún að miklu leiti um það hvernig ekki er hægt að breyta eðli manneskja. Þrátt fyrir að lítið sem ekkert er sagt um baksögu Driver, fáum við það sterklega á tilfinninguna að alla hans tíð hafa svona atvik, sem krefjast ótrúlega ofbeldisfullrar lausnar, poppað upp og að atburðarás myndarinnar er aðeins enn einn kaflinn. Yfir þessu öllu saman er sterkur 80’s fílíngur og t.d. klæðist aðalkarakterinn hallærislegum sporðdreka-jakka eins og einhver gleymdur steingervingur. Síðan inn á milli koma magnaðir smellir í 80’s stíl og restina fyllir æðisleg tónlist samin fyrir myndina af fyrrum-Red Hot Chili Peppers trommaranum Cliff Martinez.
Drive á skilið allt það lof sem hún hefur fengið og meira og vonum að fyrstu skref Refns innan Hollywood voru ekki bara hundaheppni.


1. X-Men: First Class
Hér fáum við að fylgjast með upphafi og enda vináttu Charles Xavier og Erik Lehnsherr, eða öðru nafni Professor X og Magneto.

Það er oft gömul tugga sögð um það hvað ‘prequels’ geta ekki verið spennandi fyrir þá sem hafa séð framhöldin, en á vissan hátt vinnur First Class bug á þessu og fann ég mig oft dauðhræddan við að einn af karakterunum myndi deyja af einhverjum ástæðum. Kannski ekki besta sönnunin, en First Class dró mig inn meira en nokkur mynd gerði síðastliðið ár og í raun eina myndin sem ég bókstaflega opnaði munninn yfir. Eflaust eru fæstir, jafnvel enginn, sammála mér um að First Class eigi skilið fyrsta sætið, en ég get ekki neitað því hversu óeðlilega mikið ég lifði mig inn í myndina. Það var nú samt ekki bara það sem setti hana hér, hasaratriðin voru stórkostleg og nánast öll með minnistæðustu senum ársins og tónlistin var girnilegt kirsuber sem toppaði þetta allt saman. Hugmyndin um gjörólíka Prófessor X og Magneto var hrein snilld og höndluð gullfallega: Í staðinn fyrir hæga, vitra Prófessorinn, var hér mættur ungur og kokhraustur háskólanemi sem drakk sig vitlausan en missti aldrei sjónar á réttvísinni. Magneto breyttist úr virðulegum snillingi yfir í eitursvala Bond-týpu og voru „ævintýri“ hans í leit af fyrrverandi nasistum hápunktur myndarinnar. Það kom mér þó á óvart hversu tilfinningalega sterk myndin var og hún reif sig gjöramlega í mig.
Ég ætlast ekki til að þið skiljið hrifningu mína af myndinni, bara að fleiri sjái að þetta er aðeins meira en bara ofurhetjumynd. Þetta er átakanleg sálfræðilexía og pólitísk ádeila sem ekki aðeins endurvekur nánast dauða seríu, heldur strokar út tvær hræðilegar kvikmyndir í leiðinni. Hvað er ekki hægt að elska?

___________________________________________________________________________________________________________

Þar hafið þið það, mínar uppáhaldsmyndir frá árinu. Auðvitað er hver listi öðruvísi og hver og einn tekur öðruvísi á móti myndum. Það voru ekki margar myndir sem ég hélt upp á sem enduðu ekki á listanum, meðal þeirra voru: Ævintýri Tinna, Harry Potter and the Deathly Hallows Pt. 2 og Super 8.
Annars þakka ég ykkur fyrir samveruna á síðastliðnu ári og óska ykkur gleðilegs nýs árs!