Robocop í Star Trek 2

Gamla brýnið Peter Weller, sem þekktastur er fyrir að hafa leikið Robocop í samnefndri mynd Paul Verhoven frá 1987 (sem nú er einmitt verið að endurgera), hefur verið ráðinn í hlutverk í framhaldi Star Trek, sem koma á út vorið 2013. Ekki er mikið vitað um hlutverk hans, en netspekingarnir telja að hann verði næstráðandi aðal illmennis myndarinnar, sem Benicio del Toro átti kannski að leika (en virðist vera hættur við). Vangaveltur eru uppi um að það illmenni verði Khan Noonien Sing, sem Ricardo Montalban lék svo eftirminnilega í Star Trek II: The Wrath of Khan og hefur lengi verið í uppáhaldi hjá aðdáendum, en ég sel það ekki dýrar en ég keypti það.

Ásamt Weller hefur bæst í hópinn þokkadísin Alice Eve (She’s Out of My League), og svipað lítið er vitað um persónu hennar – þó gaf einhver upp að hún væri ný persóna. Líklega verður hún í pilsinu sem Kirk reynir að eltast við. Myndin verður gerð í 3D, og kemur út í Bandaríkjunum 17. maí 2013. Leikstjóri er sem fyrr J.J. Abrams, og búist er við nánast öllum leikhópnnum úr fyrri mynd aftur.