Potter-maraþon: Deathly Hallows: Part 1


Teljið klukkutímanna og finnið ykkur flottan búning því kvöldið í kvöld verður hreint út sagt ógleymanlegt fyrir íslenska Potthausa. Nú kryfjum við fyrri hluta lokakaflans, eða nánar tiltekið upphafið að endinum.

ÁR #6: HARRY POTTER AND THE DEATHLY HALLOWS: PART 1

Svo að lokinni sýningunni mun ég setja upp frétt þar sem ég spyr hvað ykkur fannst um nýjustu myndina.

IMDB einkunn: 7,7
RottenTomatoes prósenta: 79%
Ebert: 3/4

Umfjöllun: skrifuð af einhverjum hálfvita þann 13. nóvember 2010.

Það er svakalega erfitt að gagnrýna kvikmynd þegar maður hefur ekki séð hana alla. Í mínum augum er þetta eins og þegar hléið kemur í bíói og félagi þinn spyr: Hvernig finnst þér myndin? Sjálfum finnst mér ómögulegt að svara slíkri spurningu með öðruvísi orðum heldur en „hún er góð hingað til“ eða „það verður spennandi að sjá hvert þetta stefnir.“ Þú getur ekki mótað skoðun þegar þú hefur ekki séð hvert heildin fer með frásögnina og Harry Potter and the Deathy Hallows: Part 1 er fullkomið dæmi um þetta. Það er ekki hægt að meta hana eins og maður hefur metið allar hinar Harry Potter-myndirnar, því þó svo að þær tengdust allar hverri annarri þá virkuðu þær sem heilsteyptir, einstæðir kaflar þar sem hver og ein mynd hafði sinn eigin söguþráð innan um epíska plottið sem var verið að byggja upp. Það vita auðvitað langflestir ef ekki allir að Deathly Hallows er ein risastór saga sem hefur verið bútuð hér í tvennt (og ekki á seinustu stundu eins og gerðist með Kill Bill – sem átti að vera ein mynd), og okkur Potter-aðdáendum til mikillar ánægju er sitthvor hlutinn alveg sæmilega langur. En þó svo að ég hafi notið myndarinnar alveg í botn og rúmlega það, þá á ég voða erfitt með að segja nákvæmlega það sem mér finnst um hana án þess að hafa séð seinni hlutann. Skal gera mitt besta.

Þessi sjöunda mynd er virkilega, virkilega góð og olli mér litlum sem engum vonbrigðum, sem eru ávallt góðar fréttir fyrir einhvern sem elskar seríuna (bæði í bóka- og kvikmyndaformi). Það eina sem ég get samt í rauninni metið er krafturinn, keyrslan og skemmtanagildið. Það er gagnslaust fyrir mig að kafa of mikið út í frásögnina og söguþráðinn sjálfan því hnútarnir eru augljóslega allir óhnýttir undir lok myndarinnar. En hvað hitt varðar er ég mjög svo jákvæður. David Yates (sem er greinilega fæddur í það að leikstýra þessum Potter-myndum) kemur í þriðja sinn með glænýjan tón og stíl sem við höfum ekki áður fengið að sjá. Við skynjum það strax frá fyrstu mínútu að þessi saga er að detta inn á lokastigið. Harkan er byrjuð og maður finnur fyrir alvarleikanum í hverri einustu senu. Andrúmsloftið hefur aldrei verið myrkara (sem er mikið sagt miðað við það að þessi setning hefur reglulega verið sögð út seríuna) og myndin algjörlega neglir þá tilfinningu sem bókin gaf frá sér að manni finnst eins og allt gæti gerst og hver sem er tapað lífi. Það besta sem ég get sagt um þennan hluta er að hann er tilfinningalegur rússíbani frá byrjun til enda. Myndin er allt frá því að grimm – og á fáeinum stöðum er ofbeldið svo gróft að það nánast sjokkeraði mig (hardcore PG-13 stimpill hér á ferð, krakkar), meinfyndin, spennandi, falleg og hryllilega sorgleg. Engin sena náði mér þó eins sterkt og ein með Hermione alveg í byrjuninni. Brútal!

Flæðið er auðvitað pínu ójafnt af sökum þess að myndin er að troða inn eins miklu efni úr bókinni og hún getur. Ég held að engin Potter-mynd hafi verið *svona* trú uppruna sínum síðan Chamber of Secrets kom út, þannig að þið sem kvartið sífellt útaf breytingum getið aðeins farið að anda rólega. Annars er það nánast sjálfsagður hlutur að myndin skuli flæða skringilega þar sem hún hefur ekki byrjun, endi eða almennilegan miðkafla. Hún sprettir mjög hratt af stað í byrjun en hægir svo á sér upp úr miðju. Alls ekki slæmur hlutur því við fáum helling af áhrifaríkum persónuaugnablikum, en síðan fær maður á tilfinninguna að cliffhanger-endirinn sé á leiðinni og flæðið skilur mann eftir svolítið hangandi, jafnvel meira en hún hefði átt að gera. Það hefði verið töff hefði Steve Kloves (sem hefur skrifað handritið að öllum myndunum nema fimmtu) aðeins kryddað upp á lokasenurnar til að gefa þessum fyrri hluta meiri „climax“ endi. Bara aaaaðeins. Möguleikarnir voru alveg til staðar.

Eins og ég sagði, þá læt ég það vera að kafa út í söguþráðinn fyrr en ég sé seinni helminginn. Það er freistandi miðað við hversu margt er skilið eftir opið hér, en maður vonar bara að þessar uppbyggingar skili sér með fullnægjandi niðurstöðum. Annars eru helstar kvartanir mínar þær sem tengjast aðallega persónusköpuninni. Þetta tengist ekki mér eða kröfum mínum sem hlutdrægum aðdáanda bókanna heldur meira mér sem standard áhorfanda. Til að byrja með þá fannst mér Ginny algjörlega vera skilin útundan um leið og Harry, Ron og Hermione leggjast í litla ferðalagið sitt. Og það sem ég meina með því er að hún er aldrei nefnd á nafn, sem er óvenjulegt miðað við hversu mikilvæg hún á að vera í augum Harrys. Við fáum stutta senu með þeim snemma í myndinni sem staðfestir það að þau séu ástfangin, en síðan þegar allt fer í háaloft er hvergi kommentað á áhyggjur Harrys gagnvart henni eða eitthvað í þeim dúr. Þetta er vandamál sem jafnvel ein setning hefði getað reddað.

Þegar uppi er staðið tekst myndinni samt að gera akkúrat það sem hún á að gera, og margt af því felur í sér það að trekkja upp áhorfendur af spennu fyrir næsta kafla. Ég get að sjálfsögðu ekki beðið! Deathly Hallows er án efa uppáhalds bókin mín í seríunni (mínus endakaflinn – er pínu smeykur að sjá hvernig hann verður kvikmyndaður) og hingað til finnst mér aðstandendur hafa náð að kvikmynda hana glæsilega. Svo er aldrei að vita nema álit manns á fyrri hlutanum hækki ef hinn reynist vera frábær og allt byrjar að smella saman eins og það á að gera. Ég vona það allavega. Part 1 er þó ein af betri myndum seríunnar eins og stendur og það eitt og sér ætti að vera býsna traust fullyrðing að minni hálfu.

Þá er bara að telja niður í *hina* sjöundu myndina…

8/10

Þá spyr ég: Hvað finnst YKKUR um myndina og hvaða einkunn myndi hún fá?
T.V.